10.11.1933
Neðri deild: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

9. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Flm. (Thor Thors):

Það má telja fullvíst, að Alþingi það, sem nú situr á rökstólum, muni samþ. til fullnustu breytingar á stjórnarskrá vorri, sem fela í sér víðtæka rýmkun á kosningarrétti til Alþingis. Enda þótt almennt sé ætlazt til, að þingið ljúki fljótt störfum og taki eigi til meðferðar önnur mál en stjórnarskrármálið og lög um kosningar til Alþingis, þá hefi ég leyft mér að bera fram það frv., sem hér liggur fyrir. Liggja til þess þær ástæður, að hér er um mjög skylt mál að ræða, sem því fellur mætavel inn í það verkefni, sem þinginu er ætlað að inna af höndum. Þá þykir mér og æskilegt og eðlilegt, að kosningarréttur í málefnum sveita og kaupstaða sé háður sömu skilyrðum og kosningarréttur til Alþingis. Virðist a. m. k. ekki eðlilegt, að skilyrði fyrir kosningarrétti í málefnum sveita og kaupstaða séu fleiri og strangari heldur en fyrir kosningarrétti til Alþingis. En sú mundi raunin á verða eftir að stjórnarskrárbreytingin öðlast gildi, ef ekki er samtímis breytt löggjöfinni um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða í svipað horf.

Eins og getið er um í grg. þeirri, sem frv. fylgir, eru það tvær breyt., sem frv. fer fram á að gerðar séu á gildandi löggjöf, og skal ég leyfa mér að víkja að hvorri fyrir sig.

Önnur breytingin er sú, að í stað þess, að í 1. nr. 59 14. júní 1929 er þess krafizt sem skilyrði til kosningarréttar, að menn séu fjár síns ráðandi, er látið nægja skv. frv., að menn séu fjárráðir. Í íslenzkri löggjöf er gerður nokkur munur á því að vera „fjár síns ráðandi“ og að vera „fjárráður“. Orðin „fjár síns ráðandi“ eru notuð í þrengri merkingu. Samkv. l. nr. 60 14. nóv. 1917, um lögræði, eru allir, konur og karlar, sem náð hafa 21 árs aldri, fjárráðir, nema þeir hafi af sérstökum ástæðum verið sviptir fjárræði. Orðið fjárráður táknar því aðeins það, að menn hafi hinn lögmælta rétt eða hæfileika til þess að geta einir tekið á sig fjárskyldu með samningi. Það táknar það, sem á lagamáli nefnist habilitas. En orðin „fjár síns ráðandi“ merkja það, að menn hafi umráðarétt yfir fjármálum sínum. Þau taka til þess, sem á lagamáli nefnist kompetence. Munurinn sést t. d. á því, að gjaldþrota maður, sem sviptur hefir verið umráðarétti yfir búi sínu, er ekki fjár síns ráðandi, enda þótt fjárráður sé. Og það getur talizt vafi á því, hvort gift kona, sem á óskilið fjárlag með manni sínum, er fjár síns ráðandi, þó hinsvegar enginn vafi leiki á því, að hún er fjárráða, hafi hún náð 21 árs aldri og eigi verið svipt fjárræði. Þetta gildir jafnt hvort sem fjármál hjóna fara eftir l. nr. 3 frá 12. jan. 1900, þar sem aðalreglan er sú, að bóndinn einn hafi umráð yfir félagsbúinu, eða eftir l. nr. 20 frá 20. júní 1923, sem ákveða, að hvort hjónanna um sig hafi hjúskaparrétt yfir öllum eignum þeirra. Af þessum ástæðum verður ákvæðið í lok 1. gr. l. nr. 59 14. júní 1929 óþarft, en þar segir, að gift kona skuli teljast fjár síns ráðandi, þó hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum. Gerir frv. því ráð fyrir, að það falli niður. Síðasta Alþingi hefði átt að gæta þess, að samskonar ákvæði væri fellt úr stjskr. með frv. því, sem nú liggur fyrir til endursamþykktar. En það hefir ekki verið gert, og stendur þetta gamla ákvæði því óbreytt í stjskrfrv., þó að það megi nú marklaust teljast.

Þá kem ég að síðari breytingunni, en hún er sú, að síðustu leifar sveitarstyrksrangsleitninnar verði nú kvaddar í seinasta sinn. í 1. nr. 59 frá 14. júní 1929 er gert ráð fyrir, að sá, sem stendur í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk vegna leti, óreglu eða hirðuleysis sjálfs sín, missi kosningarréttinn. Það má að vísu segja, að þetta ákvæði sé þröngt og það séu ekki nema óverðugir einir, sem það á að svipta kosningarrétti. En hér er aðeins um fáa menn að ræða og ákvæðið þannig þýðingarlítið, og í öðru lagi er það einungis leifar forns skipulags, sem nú er orðið úrelt og brýtur í bága við skoðanir frjálslyndra manna. Enda þótt þeir menn, sem þetta á að bitna á, hefi unnið það til saka að hafa lent á sveit vegna leti, óreglu eða hirðuleysis, án þess að heilsuleysi eða öðrum óviðráðanlegum orsökum væri til að dreifa, þá er viðsjárvert að beita slíkum ákvæðum, því að oft má deila um, hvort þessar ástæður séu fyrir hendi, auk þess sem það gefur hreppstjórnum og bæjarstjórnum tilefni til þeirrar úthlutunar á kosningarrétti, sem oft hefir verið misnotuð eftir geðþótta og flokkshagsmunum. Því verður ekki neitað, að sveitarstjórnir hafa margsinnis beitt þessu ákvæði algerlega eftir eigin vild, t. d. til þess að hefna sín á þurfalingum, sem þeim hefir verið í nöp við, e. t. v. af þeim sökum einum, að þeir hafa ekki viljað hlýðnast pólitískum fyrirskipunum. Þetta hefir lengi verið smánarblettur á íslenzkri löggjöf, og er full þörf á, að hann sé afmáður hið fyrsta. Ef talið er hættulegt þjóðfélaginu, að þeir menn, sem hér er um að ræða, fái kosningarrétt, þá er hægt að svipta þá fjárræði og þar með kosningarrétti samkv. 1. nr. 60 frá 14. nóv. 1917. En heimildin til að svipta menn fjárræði er ekki bundin við þeginn sveitarstyrk, heldur er hún almenn og miðuð við vanheilsu, vanþroska eða aðrar ástæður, svo sem t. d. óhæfilega meðferð fjár. Hún er því eigi skorðuð við fjárhag manna, heldur lesti þeirra eða galla almennt, og er því réttlátari en svipting kosningarréttar vegna sveitarstyrks.

Ef frv. þetta verður að lögum, eru skilyrðin til kosningarréttar í málefnum sveita og kaupstaða orðin hin sömu og til Alþingis, að því einu undanskildu, að menn þurfa að hafa verið búsettir hér á landi síðustu fimm árin áður en kosning fer fram til þess að mega kjósa til Alþingis, en til þess að fá kosningarrétt í málefnum sveita og kaupstaða er nægilegt að hafa átt lögheimili innan viðkomandi hrepps eða kaupstaðar síðasta árið fyrir kjördag. Það er því eigi unnt að nota sömu kjörskrárnar, en munurinn á þeim getur ekki orðið mikill. Vegna sambandsþjóðar vorrar, Dana, þykir rétt að halda þessum ákvæðum báðum, svo Danir, sem hingað flytjast og samkv. 6. gr. sambandslaganna frá 1918 hafa jafnrétti við íslenzka ríkisborgara, hljóti ekki kosningarrétt til Alþingis fyrr en þeir hafa haft nokkra búsetu í landinu.

Gert er ráð fyrir í frv., að það öðlist þegar gildi, ef að lögum verður. Ef Alþingi verður stutt, ættu ákvæði þess að geta komið til framkvæmda við bæjarstjórnarkosningarnar, sem fram eiga að fara í öllum kaupstöðum landsins í janúar næstkomandi. Kjörskrár til þeirra þurfa ekki að vera fullgerðar fyrr en 15. des. og ætti því að geta unnizt tími til að taka á þær þá menn, sem öðlast rétt til þess samkv. þessu frv.

Þá er í frv. tekið fram, að efni þess, ef að lögum verður, skuli fært inn í meginmál 1. nr. 59 14. júní 1929 og þau gefin út svo breytt. Þar sem í 1. gr. eru ákveðin skilyrðin fyrir kosningarrétti, er hún í rauninni aðalgrein laganna, og er því rétt, að hún fylgi meginmáli þeirra.

Að lokum vil ég geta þess, að þar sem þær breyt., sem hér eru ráðgerðar, eru þær sömu og gerðar hafa verið á skilyrðum fyrir kosningarrétti til Alþingis, og það með samþykki allra flokka þingsins, ætti frv. þetta ekki að geta valdið ágreiningi né orðið til þess að tefja þingið.

Þá vil ég mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.