10.11.1933
Neðri deild: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

9. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Vilmundur Jónsson:

Ég hreyfði því í n. þeirri, sem undirbúið hefir lögin um kosningar til Alþingis og ég átti sæti í, að full ástæða væri til að sú hin sama n. tæki jafnframt til athugunar lög um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Mér virtist það liggja í hlutarins eðli, að samræma bæri öll lög um kosningar hér á landi, eftir því sem unnt væri, og vakti fyrir mér að færa þau ekki aðeins til samræmis að því leyti sem hér er stungið upp á og sjálfsagt er, heldur að öllu leyti, þannig að m. a. yrði kosið eftir sömu aðferðum og jafnvel eftir sömu kjörskrám. Sumum finnst e. t. v. ástæða til að heimta lengri búsetu innan kjörsvæðis sem skilyrði fyrir rétti til að greiða atkv. þegar kjósa á hreppstjórn eða bæjarstjórn heldur en þegar kosið er til Alþingis. En það þarf ekki að vera því til fyrirstöðu að nota megi sömu kjörskrár. Samkv. frv. því til l. um kosningar til Alþingis, sem nú liggur fyrir þinginu, á að semja kjörskrárnar í febrúar.

Ef þær kjörskrár væru nú notaðar við bæjarstjórnarkosningar í janúar árið eftir, væru allir kjósendurnir búnir að vera heimilisfastir allt að því eitt ár innan kjörsvæðisins þegar kosningin færi fram.

Uppástunga mín um samræmingu kosningalaganna fékk ekki undirtektir í n. og var því ekkert gert þar í þessu máli. En ég er reiðubúinn til að eiga samvinnu við hv. flm. þessa frv., ekki aðeins um þær breyt., sem hann stingur hér upp á, heldur einnig um að samræma kosningalögin í heild. Ætti slík samvinna að vera auðveld, þar sem við eigum sæti saman bæði í stjskrn., sem hefir til meðferðar frv. til laga um kosningar til Alþingis, og allshn., sem þessu frv. verður væntanlega vísað til að lokinni þessari umr. Ég get tekið undir með hv. flokksbróður mínum, að það er mjög ánægjulegt, að einmitt íhaldsmaður skuli nú flytja þetta frv. Það er ekki langt þess að minnast, að fyrir tilstilli Alþfl. var flutt á þingi frv. með nákvæmlega sömu ákvæðum og hér er um að ræða. En þá kemur formaður Sjálfstfl. og setur inn í það þann fleyg, sem hinn ungi íhaldsmaður hefir nú lýst sem svo mikilli rangsleitni og talað um, að hreppstjórnir hafi notað til að hefna sín á þurfalingum. Þessu báru Alþfl.menn einmitt kvíðboga fyrir. Það mun orð að sönnu, að þessu ákvæði hefir verið misbeitt, og ég ætla, að óhætt sé að fullyrða, að það hafi einkum átt sér stað þar, sem íhaldsmenn ráða. A. m. k. er það svo þar, sem ég þekki bezt til, og nefni ég t. d. Ísafjörð annarsvegar, þar sem jafnaðarmenn ráða bæjarmálunum, og stærsta þorpið í næstu sýslu hinsvegar, Bolungavík. Á Ísafirði er heimildin til að láta þurfalinga hafa kosningarrétt undir öllum kringumstæðum notuð til hins ýtrasta, en í Bolungavík, þar sem Íhaldsmenn eru í meiri hl., er allt gert til þess að svipta þá kosningarétti. Jafnaðarmenn fara þannig að á Ísafirði fyrir alþingiskosningar, að þeir strika út allar sveitarskuldir, til þess að þurfalingarnir geti verið á kjörskrá. Í Bolungavík voru aftur á móti við síðustu alþingiskosningar 20 til 30 fjölskyldur, flest orðlagt dugnaðarfólk, sviptar kosningarrétti vegna sveitarstyrks, er nær undantekningarlaust hafði verið þeginn vegna ómegðar eða sjúkdóma.

Það er sérstök ástæða til að gleðjast yfir því og undirstrika það, að íhaldsmaður flytur þetta frv., með því að það getur orðið til þess, að sveitarhöfðingjar túlki síður lögin á þann hátt, að ekki sé ástæða til að taka þau bókstaflega, „þar sem Alþingi hafi ekki haft neina ástæðu til að bera þau fram“, eins og einn hv. þm. sagði um annað kosningalagaatriði fyrir skömmu hér í þessari hv. deild.