22.11.1933
Neðri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

22. mál, lögreglustjóri í Bolungarvík

Thor Thors:

Eins og hv. frsm. gat um, höfum við hv. 1. þm. Bang. skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og sá fyrirvari byggist á því, að ekki sé rétt, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Það liggur annað samskonar frv. fyrir þinginu, sem sé það frv., sem hv. þm. G.-K. ber fram um lögreglustjóra í Keflavík, og við teljum ekki rétt, að þetta aukaþing sé að stofna til nýrra embætta, en vildum mælast til þess, að hæstv. stj. athugaði fyrir næsta Alþ., hversu mörg kauptún myndu koma til greina með samskonar embætti og hér um ræðir, og skili þá einhverjum ákveðnum till. til þingsins í því efni. Það fer vel á því, að þm. geti gert sér ljóst, hvað þeir eru að samþ. með þessu, og viti, hversu margra slíkra embætta má vænta, ef farið er frekar inn á þessa braut.