28.11.1933
Efri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

22. mál, lögreglustjóri í Bolungarvík

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir haft þetta frv. til athugunar. — Það hafa nú komið beiðnir frá ýmsum hinna stærri kauptúna um það, að þau fengju lögreglustjóra hjá sér. Þessi ósk þeirra er fram komin vegna þess, að þau þurfa mjög að hafa slíkan mann til þess að framkvæma hin auknu umfangsmiklu störf kauptúnanna. Auk þess er ríkissjóði nauðsynlegt í mörgum kauptúnum að hafa þar lögreglustjóra, til þess að innheimta tolla og gjöld fyrir ríkissjóð. Tel ég, að þetta muni borga sig fyrir ríkissjóð í flestum tilfellum, og einnig í því tilfelli, sem hér er um að ræða, þrátt fyrir þau lítilsháttar útgjöld úr ríkissjóði, sem frv. fer fram á með kaupi lögreglustjóra. — N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.