30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

22. mál, lögreglustjóri í Bolungarvík

Pétur Magnússon:

Ég skrifaði undir nál. um þetta mál með fyrirvara. Ég gat ekki verið við 2. umr., og ætla því að gera grein fyrir þeim fyrirvara nú. Ástæðan til þess, að ég treysti mér ekki til þess að fylgja frv., er ekki sú, að ég viðurkenni ekki þörf kauptúnsins á sérstökum lögreglustjóra. Það er margt, sem mælir með því, ekki sízt þar sem almennur áhugi er fyrir því í þorpinu sjálfu. En við, sem eitthvað höfum haft með þessi mál að gera, vitum, að starfsmannahald ríkisins er ríkinu ofvaxið. Og eigi að gera þar breyt. á, væri óneitanlega eðlilegra, að þær gengju í þá átt að fækka starfsmönnum, en ekki fjölga þeim. Og ég sé ekki, að þörf íbúanna í Bolungavík sé svo aðkallandi, að nauðsynlegt sé að samþ. frv. nú. Verði þetta frv. samþ., þá sé ég ekki, að annað sé hægt en að samþ. líka frv. um lögreglustjóra í Keflavík, sem nú liggur einnig fyrir þinginu. Að vísu eru laun þessara lögreglustjóra ekki ætluð há, aðeins 2000 kr. hvors, en reynslan hefir sýnt, að áður en langt um líður krefjast þeir launahækkunar, og verða í flestum tilfellum komnir upp í meðalsýslumannslaun að nokkrum árum liðnum. Og það er aðeins fjárhagshliðin, sem gerir það að verkum, að ég get ekki fylgt frv.