16.11.1933
Efri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

33. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það er rétt hjá hv. flm., að á síðasta þingi lá fyrir frv. um breyt. á 1. um almenna dráttarvexti hjá lánsstofnunum, einnig Söfnunarsjóði. Það var að því leyti víðtækara en frv. það, sem hér liggur fyrir og aðeins kveður á um dráttarvexti í Söfnunarsjóði. Ég er þeirri skoðun eindregið fylgjandi, að gilda eigi sömu ákvæði um dráttarvexti fyrir allar lánsstofnanir, sem lána út fé. Hinsvegar tel ég ekki viðeigandi að tína einstakar lánsstofnanir út úr, svo sem hér er gert um Söfnunarsjóð, og setja um þær sérstök ákvæði. Það er aldrei nema rétt, að dráttarvextir Söfnunarsjóðs, sem ákveðnir eru með sérstökum lögum, eru óhæfilega háir, og er erfitt við það að búa fyrir hlutaðeigendur á þessum krepputímum. En ég held mér við það, að ef farið er að setja ákvæði um dráttarvexti, þá eigi þau ákvæði að gilda almennt, eins og gert var ráð fyrir í frv. í Nd. á síðasta þingi. Það er t. d. kunnugt, að veðdeild Landsbankans tekur 1% á mánuði í dráttarvexti, og það sýnist engin ástæða til, að Söfnunarsjóður, sem að mestu leyti er myndaður af sjóðum, er notaðir eru til almenningsþarfa, svo sem ellistyrktarsjóðir, eigi við þrengri kjör að búa heldur en t. d. veðdeild Landsbankans. Ég skýt þessu hér fram aðallega til athugunar fyrir fjhn., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, og vænti, að hún líti á það, hvort ekki sé réttara að setja hér almenn lagaákvæði heldur en að tína út úr einstaka stofnun, eða þá að láta sömu ákvæði gilda um Söfnunarsjóðinn sem um veðdeildir Landsbankans.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að athugasemdum hv. þm. viðvíkjandi almennum vöxtum í Söfnunarsjóði og svara fyrirspurn hans, að því leyti sem hún tekur til mín. Á síðasta þingi voru samþ. þau lög, að sérhverri lánsstofnun í landinu væri óheimilt að greiða hærri innlánsvexti en Landsbankinn greiðir á hverjum tíma. Því var haldið fram í hv. Nd., að lög þessi ættu einnig að ná til Söfnunarsjóðs, og fylgdu allmargir hv. þdm. þeirri skoðun. Ég taldi þetta óhæfilegt, vegna þess að svo sérstaklega stendur á um Söfnunarsjóð, að hann er ekki bundinn við að hafa fé sitt í veðlánum. Hann getur alveg eins ávaxtað fé sitt með því að kaupa verðbréf, t. d. jarðræktarbréf og önnur verðbréf, sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs. Mun það og vera í ráði, að sjóðurinn fari að hætta að lána út á fasteignir, en ávaxti innstæðufé sitt í verðbréfum, sem tryggð eru með ríkisábyrgð. Þegar lögin um Söfnunarsjóð voru samin, var það almenni mátinn og sá öruggasti að ávaxta fé með því að lána út á 1. veðrétt í fasteignum. En nú eru fleiri leiðir til þess að ávaxta fé, og ekki síður öruggar, eins og t. d. sú, að verja því til þess að kaupa verðbréf, sem eru með ríkisábyrgð og gefa af sér 5½ til 6% í vexti. Það sýnist því ekki ástæða til að skuldbinda Söfnunarsjóð til þess að greiða kannske ekki nema 4% innlánsvexti, því það hefði aðeins orðið til þess, að þarna hefði komið fram allt að því — 1½–2% „margina“, sem hefði orðið að falla í varasjóð sjóðsins. En varasjóður er nú þegar orðinn það hár, að ekki sýnist ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir til þess að auka hann svo mjög.

Viðvíkjandi umr. í hv. Nd. á síðasta þingi um það, að Söfnunarsjóðurinn mundi bráðlega lækka útlánsvexti, þá mun rétt, að ég hafi látið orð falla eitthvað á þá leið, að þess mætti vænta, að útlánsvextir Söfnunarsjóðs mundu verða lækkaðir, ef vextir lækkuðu almennt af samskonar lánum. En það álit mitt byggi ég á viðtali við einn af stjórnendum sjóðsins. Þetta hefir þó ekki enn orðið. Mun vera erfitt að breyta til um vexti á miðju ári, eins og rekstri sjóðsins er háttað. Ég get ekki heldur sagt um það nú, hvort það er ákveðið enn, að vextir lækki um áramót. Það má vera, að á því sé nú nokkuð meiri tregða hjá stjórn sjóðsins heldur en var í vor, vegna þess að í framtíðinni mun sjóðurinn ætla að kippa að sér hendinni með útlán til einstakra manna, heldur verja fé sínu til verðbréfakaupa, eins og þegar er sagt. Og mun stjórn sjóðsins hafa þar tvennt í huga: Annarsvegar að spara fyrirhöfn og kostnað fyrir ’ sjóðinn og hinsvegar tryggja styrktarsjóðina, sem eru meginstofn Söfnunarsjóðsins, og gæta hags þeirra sem bezt. Annars er það svo, að yfirstjórn sjóðsins heyrir ekki undir mitt ráðuneyti, svo mér er ekki fullkunnugt um þetta, heldur heyrir yfirstjórnin undir fjármálaráðherra.