08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (JBald):

Út af orðum hv. þm. Vestm. vil ég geta þess, að mér barst svo hljóðandi áskorun:

„Þar eð bráðlega mun draga að þinglokum, leyfum vér oss hér með að bera fram þá áskorun, að till. til þál. um áfengismálið verði tekin á dagskrá hið fyrsta, og eigi síðar en laugardag 2. n. m., og verði séð fyrir því, að málið fái afgreiðslu á þessu þingi, þar eð ekki þykir sæma, að Alþingi gefist ekki kostur á að sýna vilja sinn gagnvart niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þeirrar um afnám bannlaganna, er fram fór 21. október síðastl.

Alþingi, 30. nóv. 1933.“

Þessa áskorun hafa 14 þm. skrifað undir. Ég varð þegar við þessum tilmælum og tók málið á dagskrá laugardaginn 2. des., en ekki hefir gefizt tími til að afgr. það út af dagskránni, þar sem það er í þeirri röð, sem það var fram borið. Annars hefir Sþ. yfirleitt ekki unnizt mikill tími til fundastarfa, af því að deildunum hefir verið ætlað að ljúka sem fyrst við kosningalögin, og hefir mestur tíminn farið til afgreiðslu þess máls og annara mála, sem eru ekki öll merkari en þau mál, sem Sþ. hefir til meðferðar. En þessi till. um áfengismálið hefir komið nokkrum sinnum á dagskrá, þótt ekki sé útlit fyrir, að hún nái afgreiðslu, ef slíta skal þingi á næstunni.