08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen:

Út af ummælum hv. þm. Vestm. um, að það sé vilji flm., að þetta mál komi til umr. og atkvgr. í Sþ. sem afleiðing af atkvgr. þeirri um afnám bannlaganna, sem fram fór í haust, vil ég geta þess, að málið hefir verið borið fram í hv. Ed. á fullkomlega þinglegan hátt, en sú hv. d. hefir enn ekki lokið við að afgr. málið. Þess vegna er ekki hægt að segja annað en að þeir menn, sem telja það sína heilögu skyldu og hlutverk að halda fram við þingið þessum svokallaða þjóðarvilja, hafi þegar gert það. En það er gersamlega óviðeigandi að bera þetta mál fram í Sþ. áður en hv. Ed. hefir skilað því af sér, hvort sem það verður með neitun eða samþykki. Auk þess nær það ekki nokkurri átt, að Alþingi skori á stj. að gefa út bráðabirgðalög. Þá er langt horfið frá þingræðisgrundvellinum, er Alþingi ýtir undir stj. að gefa út lög, sem er algert verk þingsins. Það er einmitt skylda þingsins að halda stj. sem bezt til hlýðni við þingviljann, en ekki að ýta af sér sínum skyldustörfum yfir á hana.