25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

46. mál, lögreglustjóri í Keflavík

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Ég verð að biðja afsökunar á því, að það kemur fram lítilsháttar ósamræmi í nál., þar sem sagt er, að meiri hl. mæli með því, að frv. verði samþ., en meiri hl. hefir þó skrifað undir nál. með fyrirvara. Það stendur þannig á þessu, að einn hv. nm., þm. Barð., var ekki viðstaddur, þegar nál. var afgr. frá n., en hinsvegar hafði hann greitt atkv. með samskonar máli skömmu áður í n., og var því haldið, að hann myndi fylgja þessu líka. Þó hefir hann nú skrifað undir nál. með fyrirvara. Mér er ekki ljóst, hvað felst í þessum fyrirvara hv. þm., og mun hann sjálfur gera grein fyrir því. Annars þarf ég ekki að gera nánari grein fyrir þessu frv., það stendur nákvæmlega eins á um það og frv. um lögreglustjóra í Bolungavík, og vísa ég því til sömu raka og flutt voru fyrir því máli. Á báðum stöðunum vantar menn, sem vilja gefa kost á sér til þess að gegna hinum erfiðu, vandasömu og illa launuðu hreppstjóra- og oddvitastörfum, svo að til vandræða horfir. Ég geng út frá því sem sjálfsögðu, að þetta frv. fái samskonar afgreiðslu í hv. þd. sem hið fyrra frv.