08.12.1933
Sameinað þing: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Afgreiðsla þingmála

Bergur Jónsson:

Hæstv. forseti veit það vel, að meiningin með áskoruninni var sú, að málið kæmi bæði til umr. og atkvgr. En þegar hann tekur á dagskrá á undan mál, sem hann veit, að langar umr. spinnast út af, þá fer hann ekki eftir áskoruninni.

Annars er hér ekki um það að ræða, hvort tillagan fer í bága við lög eða stjórnarskrá; það eina, sem við óskum eftir, er, að þingið lýsi yfir því, hvort það ætlar að hafa í heiðri þjóðarvilja þann, sem kom í ljós við atkvgr. 21. okt., eða ekki. Ég álít það ótvírætt, að þegar síðasta þing samþ. það með næstum öllum atkv., að þjóðaratkvgr. skyldi fram fara um málið, þá hafi það ekki verið til þess að leita rökstuðnings hjá þjóðinni, heldur til þess að fá fram álit hennar og vilja. Þess vegna viljum við, að Sþ. fjalli nú um málið. Mér dettur ekki í hug að deila við hv. þm. Borgf. um réttmæti þessa; það eina, sem farið er fram á, er, að menn fái að vita það fyrir þingslit, hverjir af hv. þm. vilja láta að skýlausum þjóðarviljanum og hverjir ekki. Það er náttúrlega enginn tími til þess nú að ræða bannmálið almennt, enda gerist þess ekki þörf, þegar þjóðin hefir lagt úrskurð sinn á málið. Þá hlið málsins er búið að leysa, og hver þm., sem óskar að starfa á lýðræðisgrundvelli, verður að láta undan slíkum dómi, hvort sem persónulegar skoðanir hans sjálfs eru þessu andvígar eða ekki.