04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

72. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands hf

Jónas Jónsson:

Ég á bágt með að trúa því, að mál þetta sé svo einfalt, að ekki sé ástæða til að athuga það frekar en hv. 1. landsk. gerði. Ein af röksemdum hans var sú, að stj. liti eftir því, að fé þetta festist ekki hjá bankanum, yrði aðeins notað sem rekstrarlán. Þetta tel ég að hv. þm. þurfi að skýra betur, því að ég tel það ekki framkvæmanlega leið fyrir stjórnina. Það ætti þessi hv. þm. að vita líka, að það er ekki auðvelt fyrir þá, sem eru í stjórn, að fylgjast með því, hvernig bankarnir ráðstafa fé sínu. Því til áréttingar vil ég benda á, að Íslandsbanki varð fyrir hvað stórfelldustu töpunum einmitt þegar þessi hv. þm. var í stjórn, og það jafnvel þegar hann var formaður bankaráðsins. Með þessu er ég alls ekki að ásaka hv. þm. fyrir það, að hann hafi ekki sett sig yfir stjórn bankans, heldur til þess að benda honum á, að það muni ekki vera svo auðvelt fyrir þá, sem sæti eiga í stj., að fylgjast með útlánum bankanna. Ég vildi því óska frekari skýringa frá honum um það, hvernig hann hugsar sér, að þetta yfirlit í bankanum eigi að vera.

Að til Útvegsbankans komi fleiri lánbeiðnir en hann getur sinnt, skal ég ekki draga í efa. En ég sé ekki, hvar sá leikur á að enda, að taka stöðugt bráðabirgðalán erlendis, sem svo verða að föstum lánum, eins og venjulegt er á krepputímum. Ég er alls ekki að segja þetta til þess að áfellast bankastjórnina, heldur til þess að vara við þessum bráðabirgðalánum, sem má búast við, að verði föst, og ríkissjóði geti því orðið erfitt um að standa skil á þegar að gjalddaganum kemur.

Síðastl. vor andmælti ég því, að tekið yrði nýtt bráðabirgðalán fyrir ríkissjóð, en það var gert eigi að síður. Vil ég því nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. forsrh., hvernig þær vonir hans hafi rætzt, að lánið yrði greitt upp fyrir áramót. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að stj. hafi gert sitt bezta til þess að þessar vonir geti orðið að veruleika, en geti hún það ekki, þá myndast þarna skuld, sem ekki mun gott að skulda. A. m. k. hefir það heyrzt, að banki sá, sem féð lánaði, hafi farið fram á, að lagðir yrðu á nýir skattar vegna þess. Ég vil nú skjóta því til hv. frsm., hvort hann telji ekki nóg komið af svo góðu, að erlendir lánveitendur hlutist til um skattamál okkar. Ég fyrir mitt leyti tel, að til ófarnaðar horfi, ef haldið verður áfram á þessari lánabraut. Mun ég því ekki greiða atkv. með þessari lánsheimild frekar en annari, því að ég tel ekki fært að fjölga meira hinum erlendu víxlum en þegar er orðið, hversu æskilegt sem það væri fyrir atvinnu í landinu.