04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

72. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands hf

Frsm. (Jón Þorláksson):

Hv. 4. landsk. spurðist fyrir um það, hvernig það væri hugsað, að stj. hefði eftirlit með því, að fé það, sem Útvegsbankinn fær samkv. þessari ábyrgðarheimild, festist ekki í lengri lánum.

Það má vera, að ég hefði átt að taka þetta fram. Svo er til ætlazt, að fé það, sem stj. ábyrgist fyrir bankann, sé notað til þess að veita lán gegn veði í fiski og að bankinn hafi jafnan í sinni hendi víxla, tryggða með fiskveði, sem séu að upphæð sama og lánið er á hverjum tíma. M. ö. o., að lánið verði endurgreitt jafnóðum og víxlarnir verða greiddir.

Sú venja hefir verið, að bankinn hefir lánað 30 kr. út á hvert skpd. óverkaðs fiskkar, og bætt svo við 15 kr. í verkunarkostnað, eða lánað þannig í allt 45 kr. út á hvert skpd. af fullverkuðum fiski. Það, sem ég því átti við með þeim ummælum mínum, að stj. líti eftir því, að fé þetta festist ekki hjá Útvegsbankanum, var það, að hún gætti þess, að jafnan væru til í bankanum fiskvíxlar eins og lánið væri á hverjum tíma. Eftir þessu mun nú vera lítið af lánveitendanna hálfu, og ætlast ég til, að stj. láti líka gera það af sinni hálfu.

Þá vék hv. 4. landsk. að því, að jafnvel myndi hætta á, að þessir lánveitendur færu að blanda sér í fjármál okkar, heimta, að við legðum á nýja skatta. Þessu gerði fjhn. ekki ráð fyrir, enda mun ekki þörf að óttast slíkt. Þeir munu láta sér nægja, að til sjeu fiskvíxlar fyrir lánsupphæð þeirra.

Þá gat hv. þm. þess, að nauðsyn bæri til, að þessar lántökur erlendis hættu. Á þetta hefði hann átt að koma auga fyrr, því að það er hægt að benda á visst tímabil, þegar lántökur erlendis áttu sér stað meira en heppilegt var. En þetta tímabil var einmitt þau árin, sem hv. 4. landsk. átti sæti í stj. Þá voru tímar til þess að grynna á hinum erlendu skuldum, en það var bara ekki gert, heldur voru þær þvert á móti auknar. Vegna þessara misheppnuðu ráðstafana komst svo þjóðin í þá erfiðleika, sem nú þjaka henni og ekki verður út úr komizt, nema með því að efla svo atvinnuvegi hennar, að hún verði fær um að standa undir þeim byrðum, sem þannig hafa að nauðsynjalausu verið á hana lagðar, með lántökum og óþarflegri eyðslu. M. a. þarf og að vinna að því, að bankarnir fái ódýrt erlent rekstrarfé, svo atvinnulífið geti eflzt og blómgazt í landinu.

Ég hefi ekki tíma til þess nú að fara langt út í rökræður við hv. 4. landsk. um það, hver sé svo leiðin til þess að losa þjóðina undan þeirri nauðsyn að þurfa jafnan að leita til útlanda um lánsfé, hvenær sem atvinnuvegirnir þurfa á því að halda. Eina leiðin til þess að komast hjá þessu er vitanlega sú, að leyfa atvinnurekendunum að reka atvinnu sína í næði og safna þannig veltufé í landinu sjálfu, en rýja þá ekki með sköttum og allskonar álagningum. En mér sýnist nú annað uppi á teningnum hjá þessum hv. þm. en þetta, eftir því, sem séð verður af þskj. þeim, sem útbýtt var hér áðan og hv. þm. flytur. Þar er gengið svo langt í því að rýja fé af skattþegnunum, að tæplega verður lengra komizt.