04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

72. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands hf

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 4. landsk. beindi fyrirspurn til stj. um það, hvernig hefði farið um lánsheimild þá, sem hún fékk á síðasta þingi, hvort hún hefði verið notuð til fullnustu og hvort hægt myndi að greiða lán það, sem fengið var, fyrir nýjár. —

Lánsheimildin nam 100 þús. £, og af því hafa verið notuð 56 þús. £, og er það nálægt því, sem stj. gerði ráð fyrir í fyrra. Var það fé nær eingöngu notað til þess að greiða með vexti og afborganir af skuldum ríkissjóðs í júlímánuði. Nú virðist mér útlit fyrir, að hægt verði að greiða nokkuð af þessari skuld áður en LR. fyrir 1933 verður lokað. Geri ég mér því von um, að ekki verði um verulega skuldaaukningu að ræða á árinu 1933, þegar tekið er tillit til afborgana af eldri lánum.

Hv. 4. landsk. nefndi og, að hann hefði heyrt, að banki sá, sem fé þetta lánaði, hefði gert það að skilyrði, að lagðir yrðu á nýir skattar vegna þessa láns. Þessi saga hefir við ekkert að styðjast. Það sanna í þessu er það, að þegar leitað var fyrir um lánið, þá spurðist bankinn fyrir um hag ríkissjóðs, og eitt af því, sem honum var sagt, var það, að tekjuhalli hefði orðið á síðustu fjárlögum, og að lagðir myndu verða á nokkuð auknir skattar á vetrarþinginu, eins og líka var gert. Að bankinn hafi sett skilyrði um auknar skattaálögur, er tilhæfulaust.

Ábyrgðarheimild sú, sem hér er um að ræða, er að 2/3% hlutum endurveiting. Hvort rétt sé að hækka hana frá því, sem var, má vitanlega deila um. Ég fyrir mitt leyti tel rétt að hækka hana og skilja þá jafnframt til, að féð verði eingöngu notað til atvinnurekstrar. Annars hljóta allir að sjá, hver ávinningur það má verða bankanum að fá rekstrarfé með ca. 3% vöxtum, þegar tekið er tillit til þess, hve dýrt rekstrarfé hann hefir annars.

Að sjálfsögðu hefir stj. ekki aðstöðu til þess að vera með nefið ofan í hverjum fiskvíxli, en hún getur látið formann bankaráðsins fylgjast með um ráðstöfun lánsfjárins fyrir sína hönd. Ég mæli með því, að lánsheimild þessi verði veitt, í von um, að hún megi verða til þess að auka atvinnurekstur í landinu og lyfta Útvegsbankanum.