14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

10. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbn. hefir athugað þetta frv. og orðið á einu máli um það, að nauðsynlegt sé að leiða það í lög, vegna þess, að vitanlegt er, að ýmsir umsækjendur um lán úr Kreppulánasjóði munu ekki geta sett önnur veð fyrir láni sínu en lausafjárveð, og er af þeim ástæðum nauðsynlegt að skýra ákvæði Kreppulánasjóðslaganna hér að lútandi, einkum þó vegna hæstaréttardóms, sem fallið hefir um lausafjárveð.

Í sambandi við þetta mál get ég ekki stillt mig um að leiða athygli að því, vegna umr. um Kreppulánasjóð í Nd. í gær, að það lítur síður en svo út fyrir, að bændum landsins þyki það neyðarkostir að sækja um lán úr Kreppulánasjóði, því að samkv. upplýsingum frá stj. sjóðsins og héraðsn. úti um land má búast við, að allt að 2500–3000 bændur muni sækja um lán úr Kreppulánasjóði. Er það um helmingur af öllum bænduni landsins, sem voru um 6800 samkv. skýrslum þeim um efnahag bænda í árslok 1932, sem lagðar voru fyrir síðasta þing. Þá má og benda á það, að Búnaðarbankanum hafa borizt um 1000 umsóknir um gjaldfrest á afborgunum af vanskilalánum, og nema afborganir þær, sem sótt hefir verið um gjaldfrest á, samtals 236 þús. kr. fyrir árið 1933. Sömuleiðis hafa stjórn Kreppulánasjóðs borizt um 1200 umsóknir um vaxtatillag úr ríkissjóði, sem nemur um 58 þús. kr. fyrir yfirstandandi ár. Vaxtatillagshjálpin var áætluð 120 þús. kr. á síðasta þingi, og það má búast við, að umsóknir um vaxtatillag fyrir árið 1933 verði allt að 100 þús. kr., því að ekki hefir verið sótt uni tillagið nema að litlu leyti enn af fasteignaveðslánum í peningastofnunum úti um land. Allt sýnir þetta ótvírætt, að bændur landsins álíta það engin neyðarkjör að leita til Kreppulánasjóðs, en sem betur fer er nú heldur að rakna úr fyrir bændastéttinni um horfurnar, og verðlagið er í ár betra en það var síðastl. ár.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek aðeins þá ósk mína, að frv. verði látið ganga óbreytt í gegnum d.