29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

10. mál, Kreppulánasjóður

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þessi till. hefir verið borin undir stjórn Kreppulánasjóðs, stjórn Landsbankans og landbn., og hafa allir þessir aðilar fyrir sitt leyti fallizt á hana. Það var þegar ljóst í fyrra, að 3. gr. kreppulánasjóðslaganna myndi ekki framkvæmanleg. Á því þingi náðist ekki samkomulag um, með hvaða hætti kreppulánasjóðsskuldabréfin skyldu gjaldgeng í viðskiptum. Ég lét þess getið þá við forgöngumenn þessa máls, að stj. myndi gefa út bráðabirgðalög milli þinga, ef nauðsyn krefði, til varnar því, að öll skuldabréfin lentu hjá ríkissjóði og hann yrði vegna þess félaus og ófær um að standast skuldbindingar sínar. Þó að 3. gr. kreppulánasjóðslaganna, eins og hún nú er orðuð, feli í sér, að ríkissjóður megi líka greiða sínar skuldbindingar, starfslaun og hvað annað með kreppulánasjóðsbréfum, þá kemur slíkt vitanlega ekki til mála.

Þegar þíða á uppfrosnar skuldir, eins og tilgangurinn er með kreppulánasjóðslögunum, þá verður það ekki gert þannig, að allar gamlar skuldir verði gerðar að gjaldeyri, sem gengi manna á milli og allir séu skyldugir til að taka við. Það væri sama og ný, hóflaus seðlaútgáfa, sem yrði stórhættuleg fyrir öll fjármál landsins. Ríkissjóður verður að verja sig fyrir því, að hver sem er geti keypt þessi bréf í stórum stíl og fengið innleyst hjá bönkum upp í gamlar skuldir, sem ekkert eiga skylt við kreppulán, og svo sé öllu varpað í ríkissjóðinn.

Ég vænti þess, að ekki verði ágreiningur um till. Vitanlega verða þær lánsstofnanir, sem eiga hin frosnu lán, að láta sér lynda það, að lánin eru tryggari en áður og eiga að endurgreiðast á tilsettum tíma, þó lengri sé en lánsstofnanirnar hafa upphaflega hugsað sér. Þessar skuldir voru hvort sem er frosnar áður en kreppulöggjöfin var sett, svo að viðkomandi lánsstofnanir standa betur að vígi eftir en áður.

Ég vænti, að Alþingi geti orðið sammála þessum þremur aðilum, Kreppulánasjóðsstjórn, stjórn Landsbankans og landbn., um að þessi till. sé sjálfsögð.