29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

10. mál, Kreppulánasjóður

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki hafa á móti því, að málið verði tekið út af dagskrá, en álít hinsvegar, að það geti ekki orkað tvímælis. hvað till. merkir, að í henni er átt við skuldir ríkissjóðs, en ekki kröfur ríkissjóðs.

Þegar till. er borin saman við 3. gr. kreppulánasjóðslaganna, getur ekki verið um neinn misskilning að ræða. Það getur engum dottið í hug, sem les alla gr. í samhengi, að enginn megi borga gamlar skuldir til banka með þessum bréfum. Ef svo væri, þá væru líka kreppulánasjóðslögin ein vitleysa frá upphafi til enda. Hér getur því ekki verið um misskilning að ræða, enda hefir það komið glöggt fram í umr. hjá öllum, hvað átt er við.

Út af ummælum hv. þm. Borgf. um, að óþægilegt sé fyrir ríkissjóð að liggja með eitthvað af þessum bréfum, þá getur mönnum líka dottið í hug, að það kunni að vera óþægilegt fyrir Landsbankann að liggja með þau öll eða mikið af þeim. Erfiðleikarnir eru þá allir látnir koma niður á einni stofnun og hún er skylduð til að taka á sig öll óþægindi allra annara lánsstofnana. Auk þess er það lagt á Landsbankann, sem á að bera uppi fjármálastarfsemi landsins, að standa í ýmsum óþægindum, sem leiðir af því, að smærri lánsstofnanir svara út óeðlilega miklu fé. Þetta þarf að hindra með því að láta skuldirnar vera bundnar þar, sem þær nú eru bundnar. Það er ekki hægt að þíða svona skuldir, nema með því að afborga þær á löngum tíma. Það er landbúnaðurinn sjálfur, sem verður að leysa þær úr viðjum með þeim arði, sem skapast smátt og smátt, ár frá ári. Önnur aðferð er ekki til og önnur aðferð hefir hvergi verið reynd. Það væri einfaldur hlutur að létta af kreppu, ef aldrei þyrfti annað en að gera gamlar skuldir að gjaldeyri, þegar allt stendur fast.

Það gæti auðvitað farið svo, að einstaka sparisjóður ætti erfitt með að svara út innstæðufé, af því að hann lægi með mikið af kreppulánasjóðsbréfum. En þegar sparisjóðir standa sig vel og liggja með töluvert af þessum bréfum, sem hafa ríkisábyrgð, þá heyrir það undir Landsbankann að sjá um, að slíkar stofnanir verði ekki gjaldþrota. Til þessa þarf vitanlega að taka afstöðu í hvert skipti. Það er allt annað að leysa þannig úr vanda einstakra stofnana, sem eru þess verðar, en að demba öllu á Landsbankann með lagaákvæðum.