14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Ólafur Thors:

Hv. 1. þm. Eyf. telur á því mikla nauðsyn þegar á þessu stigi málsins, áður en það fær endanlega afgreiðslu, að það komi fram, hvar þessa verksmiðju eigi að reisa. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé ekki óeðlilegt, að þingið taki ályktun um það, hvort ríkið vilji aðhyllast, að ríkissjóður taki á sig þá fjárhagslegu áhættu, sem leiðir af stofnun slíkrar verksmiðju, en síðan eftirláti hv. þm., þeim sem hafa eins vel vit á þessum málum. hvar hentast sé að velja þennan stað.

Ég vil svo að öðru leyti ekki hafa afskipti af deilum hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. A.-Húnv., sem óneitanlega bera mikinn keim af hreppapólitík, þar sem annar rígheldur sig við Siglufjörð, en hinn við Húnaflóa. En ég vil sérstaklega vara við því að láta hreppapólitík koma til greina við staðarvalið. Ég vil láta það ráða, sem útveginum er til farsældar.

Ég ætla ekki að fara að þrátta um minni atriði við hv. frsm. n., til þess líka að forðast allar málalengingar. En ég vil einungis segja það, þar sem hv. þm. talar um, að ég hafi gert honum og öðrum nm. þær „getsakir“, að þeir myndu ekki reisa þessa verksmiðju fyrir eigið fé á Siglufirði, að fyrir mér vakti ekki að niðra þeim á nokkurn hátt. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að fyrir þann, sem ætlar að reisa bræðslustöð og sem á veiðiskip — en í þess spor á ríkissjóður að setja sig —, er hagkvæmara að reisa hana við Húnaflóa en á Siglufirði, af því að það veltur á miklu fyrir veiðiskipin, hvort þau þurfa að sigla langar leiðir eða rétt að renna sér nokkur hundruð metra til að landsetja aflann. Þessi staðreynd er svo auðsæ, að um hana þarf ekki að deila og verður ekki deilt. Hitt skal ég játa, að geti ráðið miklu, að ef bræðslustöðin verður reist á Húnaflóa, þá nær þetta mál ekki fram að ganga á næsta sumri. Og af því að ég viðurkenni, að þörfin sé aðkallandi, þá getur verið, að ég neyðist til þess að aðhyllast það, að stöðin verði reist á Siglufirði, þrátt fyrir allt, sem á móti því mælir, ef talið verður þá víst, að með því móti komist stöðin upp á næsta sumri.