14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Pétur Ottesen:

Ég er alveg sammála hv. flm. um það, að brýn nauðsyn beri til þess, að leyst verði úr þeim erfiðleikum, sem skortur á síldarbræðsluverksmiðju veldur þeim, sem síldveiðar stunda, og er það því hin mesta nauðsyn, að ráðstafanir séu gerðar til þess hið fyrsta, að úr þessu fáist bætt. En hinsvegar er mér það fullkunnugt af viðtali við ýmsa menn, sem hér eiga hlut að máli, að mjög skiptar skoðanir muni verða þar um lausn málsins, einkum að því er það snertir hvar verksmiðjan skuli reist. Það er löngu kunnugt, að þeir síldarútvegsmenn, sem stunda veiðar á sumrin við Norðurland, eiga í hverri ferð á hættu, að á Siglufirði verði öllu hleypt í strand fyrir þeim með vinnustöðvun. Síðan 1930 hafa verkföll verið tíð á Siglufirði, bæði við söltun og bræðslu, og leitt til stórtjóns fyrir hlutaðeigendur. Af þessum ástæðum veit ég það, að mjög skiptar skoðanir muni verða meðal sjómanna og útvegsmanna um það, hvort bót skuli ráðin á þessu með því að færa út kvíarnar á Siglufirði. Ég býst við, að ýmsir telji að þessu leyti heppilegra, að reist verði síldarbræðsluverksmiðja á öðrum heppilegum stað. Hygg ég því, að bezta lausnin á þessu muni verða sú, að leita álits þessara manna um það, hversu þessu skuli haga, láta þá gera tillögur um það. Ég heyri, að það er talið hagkvæmisatriði að bæta við síldarverksmiðjuna á Siglufirði að því leyti sem snertir stjórn og rekstur þessa fyrirtækis, og má vera, að nokkuð sé til í því. En hvað sem því líður þá slær verkfallshættan á Siglufirði skakka á slíkar framkvæmdir þar óhjákvæmilega. Það hefir allmikið verið talað um Skagaströnd í þessu sambandi. Sá staður liggur að áliti sjómanna vel við síldveiðum. En þar vantar höfn. Það liggja fyrir 2 eða 3 áætlanir um hafnargerð þar, mismunandi dýrar, og heyri ég, að sagt er, að það kosti ekki of fjár að bæta svo aðstöðuna þarna, að hægt sé fyrir síldveiðaskip að athafna sig. Er nú farið fram á nokkurt fjárframlag í þessu skyni og gert ráð fyrir að hefjast handa um framkvæmdir strax á næsta sumri, hvað sem úr því verður. Nú eru engar líkur til þess, að hægt verði að koma upp fyrirhugaðri verksmiðju til síldarbræðslu á næsta sumri, og virðist því engin fjarstæða að tala um Skagaströnd sem líklegan stað til að reisa verksmiðjuna á, ef bót yrði ráðin á hafnarskilyrðunum á sumri komanda. Þá eru sjálfgerðar hafnir við vestanverðan Húnaflóa, þar sem ekki þarf annað eða meira með til þess að hægt sé að afgreiða skip en að koma upp bryggjum, sem frekar er ódýrt sökum aðdýpis. Þetta þarf allt að athuga. Sauðárkrókur liggur og vel við, en þar þarf að bæta stórum alla aðstöðu áður en í slíkar framkvæmdir yrði ráðizt þar.

Það er áreiðanlegt að framþróunin í síldveiðunum við Norðurland og öðrum fiskveiðum þar verður í framtíðinni tengd meira við aðra staði en Siglufjörð. Því er það, að líka af þeirri ástæðu er varhugavert og áhætta fyrir ríkissjóðinn að binda allt of mikið fé í slíkum fyrirtækjum á þessum eina stað. Framþróunin á þessu sviði liggur ekki í því, að ríkið komi upp slíkum fyrirtækjum, heldur félagsskapur þeirra manna, sem við þennan atvinnurekstur fást.

Ég held því, að öllu athuguðu, að þá sé það heppilegast eins og nú stendur að gefa þeim, sem síldveiðar stunda, kost á því að gera tillögur um það. hvar þessi væntanlega síldarbræðsluverksm. skuli reist, og að svo verði ákveðið í frv. Vil ég skjóta því til n., að hún athugi þetta.