14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Pálmason:

Ég sló því áður fram, að það væri mjög athugaverð stefna að hrúga saman slíkum verksmiðjum eins og þeirri, sem hér um ræðir, á einn ákveðinn stað, nefnilega í þessu tilfelli Siglufjörð. Hv. 1. þm. Eyf. hélt því hinsvegar fram, að það væri að öllu leyti hentugra og betra að hafa þessi fyrirtæki öll á sama stað, og tók þar til samanburðar þá ókosti, sem það hefði í för með sér fyrir útveginn, að hann væri rekinn á við og dreif um landið. En ég vil benda hv. þm. á það, að þessi atvik eru alveg óskyld. Í þessu sambandi gildir hið sama og um bónda, sem velur sér land til ræktunar. Hann fer ekki að velja land upp til fjalla, á eyðisöndum eða lítt ræktanlegri jörð, heldur kýs hann sér land þar, sem ræktunarskilyrði eru fyrir hendi og góð aðstaða til þeirra ráðstafana, sem ræktuninni þarf að vera samfara, og ekki sízt markaðsaðstöðu. Hv. þm. hefir nú viðurkennt að síldveiði hefir verið langöruggust og bezt á Húnaflóa hin síðari ár, og ætti ekkert að mæla móti því, að verksmiðjan verði sett þar niður. Ég hefi ekki fleiri orð um þetta út af fyrir sig.

Það kom í ljós í ræðu hv. þm. G.-K., að hann grunaði mig um hreppapólitík, sem hann svo nefnir. Ég vil algerlega mótmæla þessu. Ég hefi ekkert annað gert en að lýsa staðháttum á Skagaströnd og kostum þeim, sem þar er til að dreifa í þessum efnum. Þetta ætti hann því síður að kalla hreppapólitík, sem ég er þar inni á sömu braut og hann sjálfur.

Þá vil ég að lokum geta þess, að mér þykir alveg sjálfsagt, að útvegsmenn ráði sjálfir nokkru um það, hvar verksmiðjunni er valinn staður. Þar eiga ekki að ráða um hagsmunir einstakra sveita, heldur það, hvar heppilegast sé landi og Útveg, að þetta mannvirki verði reist. Ég er búinn að færa fram ástæður fyrir því, að Skagaströnd verði fyrir valinu. En í tilefni af því, sem hv. þm. Borgf. sló fram um firðina í Strandasýslu, þá vil ég segja honum og öðrum það, að hér er sami annmarkinn á sem á Siglufirði. Ég fæ ekki séð, að neitt sé upplýst um ræktunarskilyrði þar. Firðirnir standa í engu sambandi við blómleg héruð, og að kunnugra manna dómi er innsigling þar alls ekki góð.

Ég skal þá ekki viðhafa fleiri orð, en tek undir röksemdirnar, sem styðja þessa ráðstöfun útveginum til heppilegra bóta og hjálpar.