14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Thor Thors:

Það mun margur segja, að aukaþing það, sem nú situr, hafi frekar til annars verið kallað saman en að samþ. nýjar ábyrgðarheimildir. En þó þetta sé rétt, þá ber þó að líta á þörf hvers tíma, og nú er einmitt svo ástatt, að þörf sjávarútvegsins er svo aðkallandi, að ekki má undan draga, að þetta spor verði stigið. Bygging síldarbræðsluverksmiðju myndi bæði verða til hagnaðar fyrir síldarframleiðendur og skapa verkafólki aukna vinnu. Má með fullum rétti segja, að brýn þörf sé á hvorutveggja.

En þó að um þörfina verði ekki deilt og sé ekki deilt, þá er þó eigi þess að dyljast, að um nokkra áhættu er að ræða. Í fyrsta lagi getur aflinn brugðizt. Er þess ekki langt að minnast, eins og hv. þm. G.-K. líka vék að, hvernig síldveiðin brást 1926. Sama átti sér stað árin 1917–1918. Þá aflaðist hæst á veiðiskip upp undir þúsund tunnur. En til samanburðar má geta þess, að síðustu árin hafa togararnir komist upp í 20000 mál, eða 30000 tunnur, þeir aflahæstu. Þetta sýnir, hve misjafn síldaraflinn getur orðið frá ári til árs. Því verður þess vegna ekki neitað, að ríkissjóði getur stafað nokkur áhætta af því að eiga tvær stórar verksmiðjur, ef afli bregzt. Þá getur og ríkissjóði stafað nokkur áhætta af auknum síldarafurðum, lýsi og síldarmjöli. Fyrir síldarlýsið er enginn innanlandsmarkaður. Markaður hefir fengizt fyrir það í Noregi, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og jafnvel víðar. En stærsti hlutinn hefir þó farið til Þýzkalands. Sama er um síldarmjölið að segja. En auk þess er töluverður markaður fyrir það innanlands og fer vaxandi. Ef ný verksmiðja er sett á stofn, sem vinnur úr 2000 málum síldar á sólarhring, eins og hér er ráðgert, eykst framleiðslan um 2000–2200 smálestir á ári af hvoru um sig, síldarlýsi og síldarmjöli. Það hefir þær afleiðingar, að við verðum háðari þessum markaði en nú er. Ég vil minna hv. þm. Ísaf. og jafnaðarmenn á það, að hvað sem líður stjórnarháttum þeirrar þjóðar, sem við skiptum mest við á þessu sviði, þá heimtar þessi aukna framleiðsla, að við getum átt vinsamleg viðskipti við þá þjóð.

Hvað staðinn snertir, þá tel ég, að staður við Húnaflóa sé heppilegri en Siglufjörður til frambúðar. Stöð á þeim stað væri nokkur hemill á ofríki Siglfirðinga í kaupgjaldsdeilum. Ef einnig væri síldarbræðsluverksmiðja við Húnaflóa, mætti beina flotanum þangað, þegar nokkrir ofríkismenn á Siglufirði hafa komið þar af stað ósanngjörnum kaupdeilum. Af því hlytist frekara öryggi um framleiðsluna. Hinsvegar má vera, að velja þurfi Siglufjörð í þetta skipti vegna bráðrar þarfar. En það væri þá aðeins millistig. Húnaflói yrði næst fyrir valinu, hvort sem stöðin yrði þá sett á Skagaströnd eða Strandamegin.