14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil ítreka þá ósk, að hv. n. taki til rækilegrar athugunar fyrir 3. umr., hvort unnt sé að koma verksmiðjunni svo snemma upp næsta vor, að hún verði starfhæf að sumri. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi getað fengið, tel ég útilokað, að svo geti orðið. Ég vil því, að þetta sé rækilega athugað í upphafi.

Ég held, að hv. frsm. hafi misskilið það, sem hann sagði um 20000 kr. tapið, sem verksmiðjustjórinn telur, að orðið hafi síðastl. sumar. Ég átti vitanlega ekki við svo stórt verksmiðjubákn, að hægt væri að vinna úr allri síld, hversu mikið sem að bærist, heldur það, að þó þriðja verksmiðjan hefði verið, þá hefði þá ekki verið unnt að komast hjá einhverju tapi. (FJ: Að mestu leyti). Nei, alls ekki.