18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Pálmason:

Ég verð að mótmæla þeirri skoðun hv. þm. Str. harðlega, að „á Norðurlandi“ tákni staði utan Norðlendingafjórðungs. Það er gagnstætt landfræðilegri legu og málvenju að telja Vestfjarðakjálkann með Norðurlandi.

Annars var ræða hv. þm. Str. þannig, að hún gaf tilefni til fleiri aths. Það kemur nú víst engum á óvart, þótt hv. þm. Str. kasti köldum kveðjum að hafnargerð á Skagaströnd. Hann hefir sýnt það sem ráðh., að hann ber lítinn vinarhug til þess héraðs, sem þar á hlut að máli. Ég verð líka alveg að mótmæla þeirri skoðun hans, að rangt sé að bíða eftir hafnargerð á Skagaströnd vegna þess, að verksmiðjan sé betur sett vestan flóans. Það er margt, sem mælir með því, að verksmiðjan sé fremur reist austan flóans en vestan. Staðirnir vestan við flóann eru í öræfum og samgöngur af landi mjög örðugar. Hv. þm. Str. sagði, að síldartunnurnar yrðu ekki fluttar landveg, og þóttist fyndinn, en hann má vita, að fleira þarf að flytja að og frá slíkum stað en síldartunnur einar, svo að það er ekki lítils virði, að samgöngur á landi séu greiðar. Hann segir, að hafnir séu þarna sjálfgerðar, en farmenn segja mér, að innsigling þangað sé óhrein og varasöm. Ef samgöngurnar eiga að vera tryggar á Húnaflóa, er þeim bezt borgið með höfn á Skagaströnd, því að iðulega er allt fullt af hafís að vestan, þótt greið sigling sé á Skagaströnd. Vegna greiðra samgangna á sjó og landi kæmi því síldarverksmiðjan hvergi að eins jöfnu gagni fyrir landbúnað og sjávarútveg og einmitt á Skagaströnd. Það er sem betur fer þingið, sem ræður staðnum, en ekki hv. þm. Str. einn, og gæti svo farið, að hann yrði að láta þar í minni pokann.