18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Sigurðsson:

Ég var ekki viðstaddur 1. umr. þessa máls. En nú þegar ég heyri, að aðallega er farið að ræða um, hvar verksmiðjan eigi að standa, og einn heldur fram Ströndum, annar Skagaströnd, þriðji Siglufirði o. s. frv., get ég ekki stillt mig um að benda á einn stað, sem ennþá hefir ekki verið nefndur, sem á eins mikinn rétt á sér og aðrir staðir, nema fremur sé. Þessi staður er Sauðárkrókur við Skagafjörð. Skal ég því næst drepa í stuttu máli á þær ástæður, er mæla með þessum stað sem heppilegum fyrir síldarbræðslustöð. Á Skagafirði er mikið veitt af þeirri síld, sem aflast norðanlands, svo sem kunnugt er, og því venjulega stutt að fara með aflann til Sauðárkróks. Þá hefir það verið talið sumum stöðum til gildis í þessu sambandi, að þeir væru ríkiseign. Svo er og um Sauðárkrók — ríkið á alla kaupstaðarlóðina. Það þyrfti því ekki að kaupa land undir verksmiðjuna. Þá hefir verið talað um, að nauðsynlegt væri, að nægur kostur væri á ræktanlegu landi kringum verksmiðjuna og í sveitunum umhverfis, og að frjósöm og fjölbyggð héruð væru á næstu grösum, er gætu fullnægt þörfum fólksins, er þarna mundi safnast saman. Allt þetta hefir Sauðárkrókur til að bera. Skagafjörður er svo sem kunnugt er eitt bezta landbúnaðarhérað landsins. En það, sem ekki skiptir minnstu máli í þessu sambandi og er sérstakt fyrir Sauðárkrók, er það, að Sauðárkrókur er eitt af fjölmennustu kauptúnum landsins. Þar búa um 900 manns, sem hafa lítil lífsskilyrði, eins og nú hagar til. Ég ætla, að á síðasta þingi væri ákveðið að reisa síldarverksmiðju á Seyðisfirði, að talsverðu leyti til að bæta úr atvinnuleysi íbúanna, sem eru litlu fleiri en á Sauðárkróki. Það má líta á þessa hlið málsins. Ekki eingöngu, hvar útgerðarmenn telja sér haganlegast að hafa verksmiðjuna, heldur hitt, hve margir eiga að njóta hennar. Á þeim stöðum, sem nefndir hafa verið, svo sem Skagaströnd, Reykjarfirði, Ingólfsfirði o. s. frv., er nálega engin byggð. Þar yrði að byggja upp kauptún, en á Sauðárkróki er stórt kauptún fyrir, með fjölda fólks, sem vantar atvinnu. Ég hefi viljað benda á þetta, en býst hinsvegar við, að ég hefði látið þetta mál afskiptalaust, ef ekki hefði risið upp þessi deila um staðinn. Því að sjálfsögðu hlýtur ríkisstj. að láta rannsaka skilyrðin á Sauðárkróki ekki síður en annarsstaðar.