18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bernharð Stefánsson:

Ég held, að það sé nú komin hreppapólitík inn í þetta mál. Það var sagt um mig við 1. umr., að ég væri með hreppapólitík í málinu. Ég vil nú ekki kannast við, að svo hafi verið, en hafi svo verið, er ég fús til að sleppa henni með öllu og get sætt mig við, að brtt. hv. þm. Borgf. verði samþ. með breytingum sjútvn. En ég vil láta samþ. brtt. hreint og beint, en ekki með neinum fyrirvara um Skagaströnd, Reykjarfjörð eða Sauðárkrók, heldur verði lögð áherzla á það, að fram fari óhlutdræg rannsókn á stöðum. Ég vil þess vegna skora á hv. þdm. að sýna málinu fulla velvild, eins og ég mun gera, og láta á þessu stigi málsins allar deilur um staðinn niður falla.

Að síðustu vil ég þó algerlega mótmæla þeim orðum, sem hv. þm. G.-K. lét falla nú síðast, af því að hann er sjútvnm. Hann lét svo um mælt, að það ætti að samþ. brtt. í þá átt, að allir aðrir staðir, sem nefndir hefðu verið, kæmu fyrr til greina en Siglufjörður. Þessu mótmæli ég harðlega, en ég geri það ekki sérstaklega af því, að ég beri svo mjög hag Siglufjarðar fyrir brjósti, heldur af þeirri ástæðu, að þar sem ætlazt er til, að leitað verði eftir áliti og úrskurði síldarútvegsmanna um, hvar verksmiðjan verði sett, þá á það að metast samkv. óhlutdrægri athugun, þannig, að miðað sé við hagsmuni útgerðarinnar, en ekkert við það, þó að hv. þm. A.-Húnv. þurfi að fá einhverju framgengt fyrir sitt kjördæmi, sér til framdráttar hjá kjósendunum.