18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vildi aðeins undirstrika það enn einu sinni, sérstaklega út af orðum hv. frsm., að ég tel það með öllu útilokað, að verksmiðjan verði fullger fyrir 1. júlí næstk. Mér skilst, að hann muni enn vera á þeirri skoðun, að hægt sé að byggja hana fyrir þann tíma, en það er algerlega útilokað og þýðir ekkert að ræða um þann möguleika. Það fyrsta, sem verður að byrja á til undirbúnings þessu máli, er að útvega álit útgerðarmanna og síðan að útvega lán til að reisa verksmiðjuna, og veit enginn, hvað langan tíma það tekur. Þar næst verður að leita útboða um byggingu verksmiðjunnar, og hvað fljótt sem það gengi, er útilokað, að hún verði komin upp fyrir næstu síldarvertíð.

Að því er snertir till. útgerðarmanna, þá skilst mér, að stj. verði að taka talsvert tillit til þeirra. En eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram, þá lítur sannarlega ekki út fyrir, að erfitt verði að fá stað handa þessari verksmiðju.

Út af umr. þeim, sem orðið hafa um vesturströnd Húnaflóa, vil ég taka fram, að mér finnst eðlilegast að skilja frv. svo, að einnig sé átt við hana. Enda verður að taka það gilt, þegar n. sú, sem flytur málið, lýsir því yfir, að þannig beri að skilja orðalag frv. Ég vona, að nú verði ekki fleiri staðir tilnefndir; þó sé ég, að hv. þm. Ak. hefir nú kvatt sér hljóðs, og stingur hann sennilega upp á Akureyri.