18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jakob Möller:

Ég skal ekki tefja tímann um of, en ummæli hv. þm. Barð. gerðu það að verkum, að ég stóð upp. Hv. 1. þm. Eyf. áréttaði þessi ummæli í síðustu ræðu sinni, með því að segja: „Ef á að miða við eitthvað allt annað en þarfir útvegarins, þá“ — o. s. frv. Ég skil það ekki, hvernig þessir hv. þm. fara að því, að fá það út úr umr., að það eigi að miða við eitthvað allt annað. Allir þm. sem talað hafa, munu vera sammála till. hv. þm. Borgf. En hitt hefir líka verið umræðuefni, hvort ætti að taka tillit til fleira, t. d. hvort hagkvæmara væri fyrir hinn aðalatvinnuveg landsmanna, að síldarbræðsluverksmiðjan yrði sett t. d. á Skagaströnd eða við einhvern útkjálkafjörðinn á Ströndum. Útveginn má einu gilda, en fyrir hagsmuni bænda er þar á stórmikill munur. Það er hreint og beint furðulegt, að hv. þm. Barð., hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Str., sem fyrst og fremst telja sig bændafulltrúa, skuli vilja bera hagsmuni bænda svona algerlega fyrir borð, og ekki fara eftir neinu öðru en því, sem útgerðarmenn leggja til. Hinsvegar er ég sannfærður um það, að hver einasti útgerðarmaður í landinu telur það alveg sjálfsagt, að tekið sé líka tillit til landbúnaðarins. En mér virðist svo, sem hv. þm. Barð. og hv. þm. Str. séu að lýsa hér yfir nýrri stefnu Framsfl., sem sé þeirri, að nú skuli ekki lengur barizt fyrir bændahagsmunum, og það ekki einu sinni í orði kveðnu.

Í sambandi við ummæli hæstv. dómsmrh. vil ég láta þess getið, að ég tel Strandir ekkert frekar vera á Norðurlandi fyrir það, að meiri hl. n. lýsi því yfir, að í þessu sambandi beri að líta svo á. Það minnir mig á það, sem kom fram í till. hér á þingi á árunum, að „í þessu sambandi næði Faxaflói að Þjórsárósum“! Ég hefi það fyrir satt, að dómari mundi aldrei dæma eftir útskýringu á 1., sem fram koma í umr. um málið, heldur eftir lagabókstafnum einum. Og því álít ég, að samkv. þessu frv. sé hæstv. stj. bundin við Norðurland, og ekkert annað.