18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Thor Thors:

Ég stend ekki upp til þess að halda því fram, að verksmiðjan mundi bezt sett á Snæfellsnesi. En ég stóð upp út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að það væri föst og algild málvenja, að með Norðurlandi væri átt við Norðlendingafjórðung. Ég vil þó benda á það, að í siglingamáli þýðir Norðurland alla norðurströndina; t. d. er það regla um vátryggingar, að greiða skuli hærra iðgjald fyrir skip, sem sigla fyrir Norðurlandi að vetrarlagi, og það þótt aðeins sé farið fyrir Horn. — Hinsvegar er ég alveg sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að sjálfsagt er að taka tillit til beggja aðalatvinnuvega landsmanna í þessu máli. En þar sem atkvgr. útgerðarmanna á að skera úr um staðinn, þá tel ég óeðlilegt að útiloka nokkurn stað á svæðinu frá slíkri atkvgr. En fyrst ég tók til máls, vil ég nota tækifærið til þess að benda á þann nýja anda, sem kominn er inn í þingsalinn með þessum umr. Hér koma fram „bændafulltrúarnir“ hver um annan þveran og lýsa því, hve æskilegt það væri, ef sjávarútvegurinn teygði arma sína inn í héruð þeirra. Þetta er gleðilegur vottur um skilningsauka meðal framsóknarmanna hvað þessi mál snertir. Ég veit ekki betur en að þeir hafi stöðugt haldið því fram, bæði í blöðum og á stjórnmálafundum, að ekkert væri landbúnaðinum hættulegra en mök við sjávarútveginn. Ég vona, að þessi nýi skilningur komi víðar fram en hér í þingsalnum og verði boðaður óbreyttu liðsmönnunum í blaðakosti flokksins og á opinberum stjórnmálafundum. — Ég tel mig jöfnum höndum fulltrúa bænda og sjómanna í kjördæmi mínu, og ég vona, að sá skilningur fari að verða almennari en hingað til meðal hv. þm., að atvinnulíf þjóðarinnar verður aldrei heilbrigt nema á grundvelli víðtæks samstarfs allra atvinnuvega og stétta landsins.