18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ræða hv. 1. þm. Reykv. var annaðhvort vísvitandi útúrsnúningur eða alger misskilningur á ræðum okkar þriggja framsóknarmannanna. Hann talaði um það, að við værum að bera hagsmuni bænda fyrir borð. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Honum þýðir ekki að vera að bera bændurna fyrir sig í þessu máli. Það eru ekki þeir, sem eiga að greiða atkv. um stað verksmiðjunnar. Það er hárrétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að það skiptir engu máli, hvort það verða eyfirzkir, skagfirzkir eða þingeyskir bændur, sem hafa hagnað af því að selja afurðir til verksmiðjufólksins. Þm. þessara sýslna halda auðvitað sínum bændum fram, en frá almennu sjónarmiði kemur það málinu ekkert við. — Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að hvaða útgerðarmaður sem væri mundi taka tillit til þess, hvernig uppland sá staður hefði, sem verksmiðjan yrði sett niður á. En auðvitað velja þeir staðinn með það fyrir augum fyrst og fremst, að hann liggi sem heppilegast fyrir síldveiðunum. Mér er sem sagt alveg óskiljanlegt, á hvern hátt við séum að ganga á móti hagsmunum bænda með afstöðu okkar í þessu máli. Og ég vil skora á hv. 1. þm. Reykv. að sýna það, að hann sé meiri bændavinur en við, með því að bera fram viðbótartill. við brtt. hv. þm. Borgf., þess efnis, að einnig skuli fara fram atkvgr. meðal bænda á Norðurlandi um það, hvar verksmiðjan eigi að standa. Þetta væri auðvitað tóm fjarstæða. Við höfum haldið því fram, að það ætti að spyrja þá menn ráða í þessu máli, sem reynslu og þekkingu hafa á því, sem hér um ræðir. Við viljum losna við alla hreppapólitík úr þessari atkvgr. — Ég vil benda á það, að ég álít mig alls ekki eingöngu bændafulltrúa. Í mínu kjördæmi eru auk bænda sjómenn, verkamenn, útgerðarmenn o. fl. Ég tel mig alveg jafnt fulltrúa allra þessara stétta. En það eru þeir hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf., sem hafa verið að reyna að veiða sér kjósendafylgi með því að látast koma fram sem hreinir bændafulltrúar í þessu máli. — En ég vil halda því fastlega fram, að þetta er fyrst og fremst sjávarútvegsmál, og meðferð þess á að fara eftir því. — Út af þessum ágreiningi um málvenjur vil ég spyrja hv. 1. þm. Reykv., hvort hann telji Húnaflóa fyrir norðan eða vestan, og hvort síldarbræðsluverksmiðja, sem stæði við höfn við Húnaflóa, sé fyrir norðan eða vestan.