22.11.1933
Efri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Jónsson:

Ég hafði hugsað, að ekki yrðu langar umr. um þetta mál hér í d. eins og frá því var gengið í Nd. Þar urðu talsverðar umr. um það, og var síðan gengið þannig frá því, að öllum átti að líka vel, með því að hafa svæðið rúmt, og í annan stað átti að leita eftir till. þeirra manna, sem bezt þekktu til í þessu efni. Ég bjóst sannarlega við, að málinu væri bezt borgið með að hafa þetta svona.

Annars vil ég benda á það, úr því að verið er að nefna einstaka staði fyrir verksmiðjuna, að mér finnst hiklaust, að Húnaflói komi fyrr til greina en þessir staðir þar austur frá, af því að kunnugt er, að mikinn hluta síldveiðatímans er mikið af síldinni veitt á Húnaflóa, og auk þess munu síldveiðimenn telja síldina þar betri en annarsstaðar. í áliti frá stjórn síldarbræðsluverksmiðjunnar var þessu m. a. haldið fram, enda er það líka kunnugt, að skilyrði eru þarna góð. Báðir þessir staðir liggja nokkuð langt frá aðalbræðslustöðinni á Siglufirði, og hafa að því leyti rétt á að hafa síldarbræðslustöð, ef hún verður sett á stofn. Aðstaðan við Húnaflóa er, eins og áður er tekið fram, að ýmsu leyti góð. Það má deila um, hvort verksmiðjan ætti að vera að austan- eða vestanverðu við hann. Vesturhlutinn hefir þann mikla kost, að þar eru sjálfgerðar hafnir, en að austanverðu er aðstaðan að ýmsu leyti betri og hafnargerð er ákveðin á Skagaströnd. Sjútvn. hefir hvatt til, að hafnargerðin verði hafin nú þegar, svo að því leyti er Skagaströnd ekki verr sett.

Það mælir ennfremur með því, að verksmiðjan sé reist vestantil á Norðurlandi, að austurhlutinn hefir þar nokkra úrlausn, sem verksmiðjan á Raufarhöfn er. Mér virðist því allt benda til þess, að ef ný verksmiðja verður reist, þá sé það gert við Húnaflóa, en sem sagt, þá legg ég ekki sérstakt kapp á þetta, vegna þess að ég álít, að heppilegasta leiðin sé valin, þegar leitað er álits þeirra manna um þetta efni, sem kunnugastir eru þessum málum og bezt vit hafa á þeim, og ég álít, að úrskurði þeirra verði allir að hlíta.