22.11.1933
Efri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Baldvinsson:

Það eru fá frv., sem fram hafa komið á þessu þingi, þar sem hreppapólitíkin hefir komið eins greinilega fram eins og í umr. um þetta mál. Við umr. um það í Nd. stóðu upp allir þm. þeirra kjördæma, sem eiga hlut að máli, á svæðinu frá Hornbjargi að Langanesi, og hver mælti með því, að síldarverksmiðjan yrði stofnsett í sínu kjördæmi.

Það virðist vera ríkast í hugum manna um þetta mál, hvar verksmiðjan eigi að standa. Ég álít sjálfsagt, að verksmiðjan sé reist þar, sem er miðstöð síldveiðanna, en það er á Siglufirði. Þar er fyrir stærsta síldarbræðslustöð landsins og verksmiðjan, sem ríkið keypti í fyrra. Þessi staður liggur svo nálægt beztu síldarmiðunum, sem hér hefir verið talað um, að varla er hugsanlegt, að hægt sé að sameina óskir manna betur á annan hátt en með því að reisa síldarbræðsluverksmiðjuna á Siglufirði. Þar er fyrir svo mikið af nauðsynlegum tækjum, t. d. góð höfn og bryggjur, og þar eru þrær til þess að geyma síldina í, hús fyrir mjölið, og þó einhverju þyrfti við að bæta, þá er það smáræði, sem aukreitis þyrfti til að kosta. En ef ætti nú að fara að reisa verksmiðju á einhverjum af þeim stöðum, sem talað hefir verið um, t. d. Reykjarfirði, Hvammstanga, Skagaströnd, Húsavík eða Raufarhöfn, og þá ef til vill einhversstaðar austar, þá þarf á öllum þessum stöðum einnig að gera góða höfn og bryggjur, til þess að skip gætu jafnan fengið fljóta og góða afgreiðslu.

Þegar verið er að tala um hina og þessa staði í sambandi við byggingu nýrrar verksmiðju, þá er farið fram á meira en felst í frv.; það er líka verið að fara fram á, að gerðar verði dýrar hafnir og bryggjur.

Ég veit ekki til þess, að fullkomin rannsókn liggi fyrir um hafnargerð á nokkrum þeim stað, sem nefndur hefir verið. Í hafnargerð gætu því farið mörg hundruð þús. og jafnvel millj. kr. Menn segja, að höfn á Skagaströnd muni kosta a. m. k. 1 millj. eða jafnvel á aðra millj. kr.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þétta frekar, en ég vildi benda á það, að þegar í þessu sambandi er verið að tala um aðra staði en Siglufjörð, þá er óbeinlínis verið að fara fram á, að stórfé sé veitt til hafnargerða og bryggjusmíði, sem frv. fer alls ekki fram á.

Vilji ríkisstj. framkvæma þann vilja Alþ., sem óskiptur felst í þessu frv., að reisa síldarbræðslustöð á Norðurlandi, þá liggur næst að gera það á þeim stað, þar sem nú er fyrir verksmiðja. Hitt er allt annað mál, ef ríkisstj. vildi kaupa verksmiðju, sem stæði annarsstaðar — og ég myndi álíta það rétt, — og eins að hún legði undir sig þennan verksmiðjuiðnað. — En þetta er annað atriði, ef ríkissj. vildi kaupa síldarbræðslustöðina á Raufarhöfn, og alveg óskylt því, sem hér er verið að ræða um. Hér er farið fram á að auka möguleika fyrir því, að fleiri skip geti komizt á síldveiðar og þar af leiðandi fleiri menn fengið atvinnu við síldveiðarnar.

Nú er það kunnugt, að ekki nema frá 5 og upp í 7 til 8 togarar fara á síldveiðar af yfir 30 togurum, og líka er kunnugt, að sumir línubátar liggja a. m. k. sum árin, og fjöldi stórra mótorbáta fer ekki á síldveiðar. Sérstaklega eru það togararnir, sem geta veitt síld til bræðslu í stórum stíl og veita þá mikla atvinnu, ef þeir hafa möguleika til þess að losna við síldina.

Enn sem komið er er ekki nein tregða á að selja síldarmjöl eða síldarlýsi, þó að það hafi verið háð þeim sömu verðbreytingum og önnur hráefni.

Ég sé ekki, að ríkisstj. geti framkvæmt þennan vilja Alþ., að koma upp síldarbræðslustöð fyrir síldveiðatímann 1935, nema hún reisi hana á Siglufirði, vegna þess að á öðrum stöðum er um svo stórkostleg hafnarmannvirki að ræða í sambandi við verksmiðjuna.

Mér virðist eðlilegast að skilja orðalag frv. svo, um það hvar verksmiðjan eigi að standa, að það sé sett til þess, að ekki sé hægt að ásaka þá þm., sem eru fulltrúar fyrir þau kjördæmi, sem liggja að síldveiðasvæðinu, svo að þeir gætu sagt, að þeir hefðu haft von fyrir sitt kjördæmi, og að þannig yrði komizt hjá reipdrætti um staðinn, ef hann væri beinlínis nefndur í frv., og þá ef til vill spillt málinu, eða jafnvel eytt því. Til þess að þetta komist fljótt í framkvæmd, þá er ekki nema um einn stað að ræða, þann stað, sem liggur að miðju síldveiðasvæðinu, Siglufjörð.