04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Baldvinsson:

Mér skilst, að allmargir hv. þm. hafi nú sameinazt um að vera með því, að ríkið komi upp og reki síldarverksmiðju á Norðurlandi, þótt þeir fallist ekki allir á ríkisrekstur almennt. Þetta byggist á því, a. m. k. eins og stendur, og líklega verður svo um langt skeið, að félög eða einstakir útgerðarmenn eru ekki færir um að koma upp síldarverksmiðjum. Það er of stórt fyrir þá að ráðast í að koma upp verksmiðjum, sem kosta mörg hundruð þús. kr., því fremur sem þeir berjast nú flestir í bökkum. En hinsvegar er jafnmikil nauðsyn fyrir fólkið og fyrir ríkið, að þessi atvinnutæki séu notuð við framleiðsluna. Mönnum er ljóst, að á tímabilinu frá júnímánuði og fram í ágúst eða september hafa mörg af okkar stóru fiskveiðaskipum ekkert að gera, og þá vitanlega ekki heldur skipshafnirnar af þeim, því að þeim störfum, sem annars eru unnin í landi á þessum tíma, er ekki hægt að bæta fólki, þó þetta hafi verið kallaður mesti annatími ársins. Hér á Suðurlandi a. m. k. er vetrarvertíðin nú fyrst og fremst annatími. Af þessum ástæðum hafa hv. þm., án tillits til skoðana sinna á ríkisrekstri yfirleitt, fallizt á, að ríkið eigi og reki síldarverksmiðjur, fyrst og fremst þá stóru og fullkomnu verksmiðju, sem komið var upp á Siglufirði og í öðru lagi þá, sem keypt var í fyrra Og þetta þykir ekki nóg, enda er hægt að sýna fram á það með ljósum rökum, að það er svo langt frá því, að svo sé, ef meginhluti skipaflotans ætti að fara á síldveiðar og því mætti treysta, sem von að er, að síldarmjölið og lýsið geti selz árlega. Til dæmis má benda á, að af un 30 togurum voru það ekki nema örfáir sem fóru á síldveiðar síðastl. sumar. Það var aðallega Kveldúlfur, sem sendi sína togara út, og þeir sjö togarar gátu full nægt tveimur stórum bræðslustöðvum svo ef þeir togarar, sem eftir lágu, væri sendir út, veitti sannarlega ekki af því að reisa stóra síldarbræðslustöð til viðbótar á Norðurlandi og aðra á Seyðisfirði, þó séð væri um, að allar verksmiðjurnar, sem nú eru til, verði starfræktar áfram. Það er vitanlega af þessum ástæðum, að þingið vill leggja í þessi fyrir tæki, að það álítur, að það muni verði til léttis í því erfiðleikaástandi, sem þjóðin á nú við að búa. Eins og ég sagði upphafi, er einstökum mönnum ofvaxið að koma upp svona fyrirtæki, og þá er sjálfsagt, að ríkið hlaupi undir bagga. Ég mun því greiða till. n. atkv. Mér virðist hún vera á réttri leið í því að reyna að auka atvinnuna í landinu með aðgerðum ríkisins, sem ég álít heppilegra heldur en að veita atvinnubótastyrki til einhverrar e. t. v. arðlausrar vinnu. Mér sýnist það rétt stefna að reyna að stuðla að því, að þau atvinnufyrirtæki geti gengið, sem veita atvinnu og geta framleitt vörur, sem menn vonast til, að hægt sé að selja erlendis.