04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Eins og ég tók fram áðan, þá blandast engum, sem hér eru inni, hugur um, að þörf sé á þessu. En það má alltaf deila um það, hvort rétt sé að íþyngja ríkissjóði með lánsheimildum og ábyrgðum, eins og hæstv. dómsmrh. gat um. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þegar um jafnmikilvæga atvinnuvegi er að ræða fyrir útgerðarmenn og sjómenn, þá ber ekki að horfa allt of mjög í það og vera of svartsýnn í þá átt, sérstaklega þegar reynsla undanfarinna ára hefir sýnt, að ríkissjóður hefir ekki orðið fyrir neinum töpum af þessum atvinnurekstri, a. m. k. ekki tvö undanfarin sumur.

Þó fjölgað verði síldarverksmiðjunum, þarf ekki að óttast, að skipastóllinn verði ekki nægur. Og það er líka víst, að eftir því sem hægt er að bræða síldina ferskari, er hún betri vara og því meiri gróði fyrir ríkissjóð, að hún komist sem fyrst í bræðslu. Að með brtt. n. sé verið að auka við þessa upphæð, er ekki rétt. Eins og hæstv. dómsmrh. hlýtur að sjá, er gert ráð fyrir, að þessar 100 þús. kr. séu innifaldar í þessari 1 millj., sem hæstv. ráðh. segir, að ekki liggi nein áætlun fyrir um, að verksmiðjan muni kosta. Það var gert ráð fyrir því fyrst, að ef verksmiðjan yrði reist á Siglufirði, myndi hún kosta 500 þús. kr. En af því að ekki er ákveðið, hvort eigi að reisa verksmiðjuna þar eða annarsstaðar, var lánsheimildin hækkuð. Þetta hygg ég, að sé rétt hjá mér, og þess vegna séu ekki líkur til, að kostnaðurinn fari fram úr 1 millj. kr., þó þessar 160 þús. bætist við. Og um leið og það er heimilt fyrir ríkisstj. að fá 1 millj. kr. lán, er, svo framarlega sem þessar brtt. verða samþ., heimilt að fá lán til þess að kaupa þessi 100 þús. kr. hlutabréf í h/f Síldarbræðslunni á Seyðisfirði.

Mér finnst það heldur ekki sæmilegt fyrir þingið, úr því það er búið að gefa heimild um ábyrgð fyrir svo og svo miklu fyrir síldarverksmiðjuna, sem verið er að reisa á Seyðisfirði, að gera þeim þá máske ókleift að koma upp þessari verksmiðju eftir að þessi 1. eru samþ., og þá um leið að taka burt þá atvinnuvon, sem ábyggilegt er, að Seyðfirðingar sjálfir álíta hina farsælustu fyrir plássið.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um sína brtt., þá hefir n. ekki tekið neina ákvörðun gagnvart henni og þess vegna eru nm. óbundnir með sínu atkv. En frá mínu sjónarmiði séð er ég ekki á því, sem hv. þm. sagði, að það beri að reyna að koma þessum síldarbræðsluverksmiðjum öllum undir einn hatt, því þetta eru óneitanlega áhættusöm fyrirtæki og það er gefinn hlutur, að ef illa fer, þannig að síldveiðar bregðist, þá verður það tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð. Þess vegna álit ég, að þær verksmiðjur, sem þegar eru komnar og eru starfræktar, eigi að reka á sama hátt og áður hefir verið gert. Ég er ekki í neinum vafa um það, að t. d. þessi síldarbræðsluverksmiðja, sem hefir verið gengið frá í Nd. og sem hv. þm. gat um, Hesteyrarstöðin, mundi hafa haldið áfram jafnt hvort sem ríkissjóður hefði keypt hana eða ekki. Mörg undanfarin ár hefir því verið hótað, að verksmiðjan yrði ekki rekin, en samt hefir hún alltaf verið starfrækt. Eins hefir verið með Raufarhöfn. Og eftir því, sem mér hefir verið sagt af kunnugum mönnum, mun verksmiðjan ekkert síður verða rekin í ár heldur en undanfarið, og það er enginn vafi á því, að rekstrinum mun haldið áfram meðan nokkur hagnaðarvon er.

Ég álít þess vegna, að það sé of snemmt að tala um það á þessu stigi málsins, að ef ekki verði veittar þessar heimildir, þá muni þorpsbúar neyðast til að biðja um atvinnubótastyrk. Ég álít eins miklar líkur til þess, að verksmiðjan verði starfrækt, jafnvel meiri líkur heldur en að hún verði lögð niður.

Og þar að auki hafði n. engar upplýsingar um það, í hvernig ásigkomulagi vélar og annað þess háttar væri, og vildi þess vegna ekki taka neina ályktun og alls ekki mæla með þessari heimild.