04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Pétur Magnússon:

Ég stend ekki upp í því skyni að mæla beinlínis á móti frv. því, er fyrir liggur. Ég sé vel þörfina á aukinni framleiðslu í landinu og aukinni sumaratvinnu fyrir sjómannastéttina. Mér finnst hinsvegar, að umr. um þetta mál hafi hnigið svo einhliða, að ég vil gjarnan líta á málið frá nokkuð öðru sjónarmiði. Þeir, sem talað hafa, virðast yfirleitt hafa verið þeirrar skoðunar, að hér væri um áhættulítið og öruggt gróðafyrirtæki að ræða. Þetta þykir mér of mikil bjartsýni, og sú reynsla, sem við höfum fengið af síldaratvinnuveginum — í hverri mynd sem hann hefir verið rekinn — bendir eindregið til hins gagnstæða.

Það þarf naumast að saka Alþ. um, að það hafi ekki látið síldaratvinnuna til sín taka hin síðari ár. Stefnan virtist a. m. k. um eitt skeið vera sú, að þjóðnýta þessa atvinnugrein að fullu og öllu. Fyrsta sporið var stofnun síldareinkasölunnar. Þá harmsögu þarf ekki að rekja. Allir vita, að hún bakaði ríkissjóði milljóna tap. En það var þó ekki aðalatriðið. Hitt var vafalaust ennþá verra, að búið var að eyðileggja aðalmarkaðinn fyrir ísl. síld, þegar einkasalan lognaðist út af. Svo fór nú með þá tilraunina. — Næst kom bræðsluverksmiðjan mikla á Siglufirði. Henni var hreint frá ætlað að verða neitt áhættufyrirtæki. En hver varð raunin? Stofnkostnaðurinn varð svo gífurlegur, að mjög er vafasamt, að hún hefði nokkurn tíma orðið lífvænlegt fyrirtæki, ef ekki hefði viljað svo lánsamlega til, að ríkinu tókst að fá keypta aðra bræðsluverksmiðju við hliðina á hinni fyrir hálfvirði. Sú ráðstöfun gefur vonir um, að fyrirtækið í heild sinni geti risið undir kostnaðinum, þó vitanlega sé ekkert hægt að fullyrða um það.

Nú liggja fyrir þinginu till. um byggingu nýrrar verksmiðju fyrir millj. kr., auk þess sem gert er ráð fyrir, að ríkið taki í sínar hendur rekstur Sólbakkaverksm., og jafnvel Raufarhafnar, og taki þátt í að reisa nýja verksmiðju á Seyðisfirði. Þó ég nú játi, að það er fullkomið vandræðaástand, að láta talsvert mikinn hluta fiskiveiðaflotans liggja aðgerðalausan um bezta tíma ársins og að löggjöfinni sé skylt að gera sitt til að ráða bót á því ástandi, þá er ég þó í talsverðum vafa um, hvort hér er ekki verið að stofna til of mikillar áhættu fyrir ríkissjóðinn. Síldarafurðirnar eru vissulega eigi síður en aðrar vörur undirorpnar duttlungum heimsmarkaðsins. Ég ætla enda, að það hafi eigi svo sjaldan komið fyrir, að þær hafi orðið að selja undir framleiðslukostnaði. Ég man t. d. ekki betur en að talið væri um langt skeið, að rekstur Krossanesverksmiðjunnar gengi mjög erfiðlega. En auk þessarar áhættu með markaðinn, sem vitanl. fylgir ávallt allri framleiðslu, bætist það, að síldin er líka duttlungafull. Að vísu er það svo, að síðustu 2 áratugina hefir síldarafli heldur sjaldan brugðizt fyrir Norðurlandi. Hitt er líka vitanlegt, að síld hefir árum saman horfið af öðrum stöðum, þar sem áður var mikill afli. Austfirðir bera þar ljósast vitni. Fyrirfram getur enginn um það sagt, nema eins fari með Norðurlandið. Og komi það fyrir, mundu afleiðingar þess verða þær, að meginhluti þess mikla fjármagns, sem lagt hefir verið í síldaratvinnuna á Norðurlandi, væri glatað.

Nú er mér það vitanlega ljóst, að framtíðaratvinnuvegir vorir verða aldrei reistir á þeim grundvelli, að þeim fylgi ekki meiri eða minni áhætta. En skylt er jafnframt að hugsa um að dreifa áhættunni eftir föngum, hafa sem flest járn í eldinum. Sé það gert, er minni hætta á, að áföllin leiði til fjárhagslegs hruns. Ég tel því, að vinna beri að því að gera síldarafurðirnar sem fjölbreyttastar, og þá fyrst og fremst að reyna að vinna nýja markaði fyrir saltaða síld. Það er kunnugt, að nú þegar hefir unnizt talsverður markaður fyrir saltsíld í Mið-Evrópu, að mestu fyrir atbeina eins manns. Og sennilegt er, að sá markaður gæti stórum aukizt, ef skynsamlega væri að farið. Gæti ísl. síldin rutt sér til rúms í Þýzkalandi og Póllandi, þannig að þessar þjóðir sæktu hingað aðalforða sinn, þyrftum við ekki að kvíða markaðsleysi í náinni framtíð, jafnvel þó minna væri brætt af síldinni en verið hefir undanfarandi ár. Og því má ekki gleyma, að yfirleitt fæst talsvert hærra verð fyrir síldina saltaða en brædda. — Þessa möguleika vil ég láta stj. athuga, þó hún fái heimildir þær, er í frv. felast, og hrapa ekki að neinu.