04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Pétur Magnússon:

Mér kemur ekki til hugar að fara út í að bera saman fisksölu og síldar á árinu 1931 og tapið á þeim. En ég tek það ekki aftur, að einkasalan eyðilagði síldarmarkaðinn. Hv. þm. veit vel, að sá markaður var aðallega í Eystrasaltslöndunum, og hann veit líka, að sá markaður var að mestu horfinn, þegar einkasalan hætti. (JBald: Þar kom til greina tollpólitíkin í Finnlandi). Nei, það voru ekki afleiðingar af neinni tollpólitík; einkasalan var með framkomu sinni búin að ýfa menn svo, að markaðurinn lá í rústum. Hitt verð ég og að halda fast við, að sá markaður, er unnizt hefir í Mið-Evrópu, er verk Magnúsar Andréssonar, en ekki einkasölunnar. Hann hafði byrjað á þeirri markaðsleit áður en einkasalan tók til starfa, en fékk að vísu leyfi einkasölunnar til að halda áfram. Er það naumast þakklætisvert.

Það er vitanlega alveg rétt hjá hv. þm., að ekki kemur til mála að hætta við síldarútveg af hræðslu við aflaleysi fremur en að hætta við búskap af hræðslu við grasleysi. En hygginn bóndi reynir að stilla svo til um búskap sinn, að hann hrynji ekki í rústir, þó grasspretta bregðist ár og ár. Og á sömu leið þyrfti að haga með síldarútveginn. Það er of djarft teflt að rígbinda hann við eina tegund síldarafurða.