25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

74. mál, augnlækningaferð

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta frv. er flutt af allshn. fyrir tilmæli mín sem embættismanns og er í sjálfu sér ákaflega einfalt. Það miðar aðeins til þess, að hægt sé að skipta fé því, sem veitt var í síðustu fjárl. til augnlækninga og augnlækningaferða, á milli þriggja lækna í stað tveggja.

Það er alveg nýlega, að augnlæknir er seztur að á Austfjörðum, og er eðlilegt og raunar mikil nauðsyn, að honum sé gert kleift að ferðast sérstaklega um Austfirði, sem hingað til hafa verið mjög afskiptir í þessum sökum. Ég vona, að enginn ágreiningur þurfi að verða um þetta. Hér er aðeins verið að breyta lítillega því ákvæði í fjárl., sem um þennan styrk fjallar, en aukin fjárútlát hefir það ekki í för með sér.

Ég vænti þess, að hæstv. forseti greiði heldur götu þessa frv., og jafnvel þó að grípa þurfi til lítilsháttar afbrigða frá þingsköpum.