29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

73. mál, búfjárrækt

Frsm. (Kári Sigurjónsson):

Í frv. á þskj. 144 er farið fram á það, eftir tilmælum hreppsnefndar Landmannahrepps, að þeim sveitar- eða bæjarfélögum, sem stofnað hafa eftirlits- og fóðurbirgðafélög samkv. ákvæðum 1. nr. 42 28. nóv. 1919 og fengið hafa staðfestar samþykktir fyrir þau, sé heimilt að búa áfram við hið sama skipulag, enda njóti þau þá eigi styrks úr ríkissjóði. Þessi lög frá 1919 heita: „Lög um samþykktir um stofnun eftirlits- og fóðurbirgðafélaga“. Þessi l. hafa verið endurskoðuð og tekin upp í lagabálk um búfjárrækt, sem samþ. var 1931.

N. hefir kynnt sér málið og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Í frv. liggja í raun og veru tilmæli um það, að gerðar séu undantekningar þær, sem áður er á minnzt, fyrir þá, sem óska eftir að hafa sjálfir sínar aðferðir um verndun bústofns síns gegn fóðurskorti. Með l. frá 1919 var lagður grundvöllur fyrir því, að slíkum félagsskap væri hægt að koma á í sveitum, en þar var ekki gert ráð fyrir því, að slík félög nytu opinbers styrks. Enda reyndist það svo, að á tímabilinu frá 1919 til 1931 voru stofnuð næsta fá slík félög, eða eftir því sem næst verður komizt, ekki nema 10 eða 11 á landinu. Af þeim félögum hafa nú flest gengið undir nýrra skipulagið síðan búfjárræktarl. 1931 voru sett. Nú munu ekki starfa nema 4 félög með eldra fyrirkomulaginu, þar af er eitt sunnanlands, þetta í Landmannahreppi, og 3 norðanlands.

Í fljótu bragði virðast ástæður liggja á móti því, að lögtekin verði þessi undantekning, að þessi félagsskapur megi hafa sínar aðferðir í þessu efni, þar sem gert er ráð fyrir, að félagsskapurinn verði undanþeginn styrk úr ríkissjóði. Það var talað um það í n., að e. t. v. væri varhugavert að undanþiggja félögin opinberum styrk, sem starfa eftir eldra skipulaginu, ef mörg slík félög væru starfandi. En þar sem svo fá félög starfa eftir þessu skipulagi, virðist ekki ástæða til að leggjast á móti frv. enda geta þessi félög gengið undir nýrra skipulagið, ef þau vilja. N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.