16.11.1933
Neðri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

28. mál, innflutningur á sauðfé til sláturfjárbóta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. er flutt í samráði við hæstv. atvmrh., og er það gert til þess að lagfæra galla, sem voru á lögunum um innflutning sauðfjár, frá 8. sept. 1931. Þegar þau 1. voru samþ., munu aðallega hafa verið höfð í huga fjárkyn til einblendingsræktunar, til þess að fá holdafé til slátrunar að haustinu, enda þótt karakúlafé mætti eftir þeim líka flytja inn, eins og nú hefir verið gert. Í þessum l. er m. a. ákvæði um, að ekki megi setja á einblendingslömb út af hinum erlendu kynjum og íslenzku fé, til þess að koma í veg fyrir frekari blöndun þessara fjárkynja, því að reynslan hefir sýnt, að þegar farið er að blanda saman þessum kynjum til langframa, þá dregur úr vexti og þrótti þeirra. En hér stendur öðruvísi á, þegar um blöndun á karakúlafé og íslenzku fé er að ræða. Karakúlaféð er einungis flutt inn til þess að framleiða lambskinn og eru þessi skinn verðmætust, þegar lömbunum er slátrað nýfæddum.

Nú hefir erlend reynsla sýnt, að möguleiki er til að fá góðan árangur með því að nota kynblendinga af þessu fjárkyni til tímgunar, og meira að segja hafa kynblendingar af þessu kyni verið fluttir inn til landsins nú síðastl. sumar í þessum tilgangi. Þegar tekið er tillit til þessarar reynslu, þá nær það ekki nokkurri átt, að leyfa ekki að setja á af þessu kyni einblendinga til tímgunar. Hinsvegar er sjálfsagt, að eftirlit sé haft með því, hvernig þetta gefst, og tel ég heppilegast, að atvmrh. setji reglur um þetta efni í samráði við Búnaðarfél. Ísl., til þess að tryggja, að þetta leyfi verði ekki notað meira en reynslan smátt og smátt sýnir, að óhætt sé.

Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til grg. frv. Vil ég leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.