25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Á Alþingi 1932 var samþ. heimild handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir dráttarbraut í Reykjavík, að upphæð 125 þús. kr. Ríkisstj. hagnýtti sér heimildina, og dráttarbrautin var byggð og hefir nú komið að miklu gagni, eins og vænta mátti.

Nú er hagur þessa fyrirtækis sá, að það þykir nauðsynlegt, eða a. m. k. hentugt, að útvega þessu félagi 50 þús. kr. hagkvæmt lán. Og félagsstjórnin hefir snúið sér til fjhn. með beiðni um, að Alþ. samþ. að heimila ríkisstj. að taka ábyrgð á þessum 50 þús. kr., enda gangi Reykjavíkurbær í bakábyrgð fyrir láninu.

Það þarf ekki að færa fram þau almennu rök fyrir nytsemi þessa fyrirtækis, sem fram voru færð á Alþ. 1932. Flestir hv. þdm. þekkja þau, og öðrum, sem hér eru nú, en voru ekki á þingi þá, mun vera kunnugt um gagnsemi þessa fyrirtækis. En ég álít rétt að skýra frá því, að á þessu ári hefir Slippurinn veitt atvinnu fyrir sem nemur um ¼ millj. kr., og gera má ráð fyrir, að sú vinna hefði að mestu farið út úr landinu, ef honum hefði ekki verið komið upp. Málið liggur því þannig fyrir, að hér er um að ræða fyrirtæki, sem af öllum er viðurkennt að sé þarft, því að upplýst er af reynslunni, að það hefir veitt þessa miklu vinnu í landinu, auk vinnu við stofnsetningu fyrirtækisins. En auk þeirra hagsmuna, sem verkalýðurinn hefir haft af þessari vinnu, má ganga út frá því vísu, að eigendur þess skipastóls, sem notið hefir aðgerðar í Slippnum, hafi mikinn hag af því, að honum var komið upp.

Stjórn Slippfélagsins hefir sent fjhn. skýrslu, sem sýnir, að frá því að félagið tók til starfa, 16. jan. 1933, hafa verið tekin upp í Slippinn milli 40 og 50 skip, og alls hefir í 186½ dag verið starfað við þau. Það er því ljóst, að þetta er til mjög mikilla hagsmuna bæði fyrir verkamenn, sem fá þarna vinnu, og eins fyrir sjávarútvegsmenn og eigendur skipa, sem notið hafa aðgerðar þar.

Ef spurt er um áhættuna fyrir ríkissjóð samfara þessari ábyrgðarheimild, þá er því til að svara, að heimildin verður því aðeins notuð, að Rvíkurbær taki bakábyrgð á láninu, og með því tel ég tryggingu fengna fyrir því, að ríkissjóður geti aldrei beðið tjón af þessari ábyrgðarheimild. Upplýsingar um efnahag og starfsemi félagsins munu að sjálfsögðu gefnar bæjarstjórn til athugunar, og dæmir hún þá um, hvort fyrirtækið er gagnlegt og fjárhagur þess með þeim hætti, að hún telji hættulítið, en nauðsynlegt að taka þessa ábyrgð. En frá sjónarmiði löggjafans hlýtur það að vera áhættulaust, þar sem um bakábyrgð Rvíkur er að ræða.

Frv. þetta er flutt af fjhn., og var n. ásátt um að mæla með því, að þessi heimild yrði veitt. Einn nm., hv. 2. þm. Reykv., var að vísu ekki viðstaddur þegar n. tók þessa ákvörðun, en allir aðrir nm. voru þessu samþykkir, og þar sem þetta félag hefir veitt svo mikla atvinnu í landinu, þá bjuggumst við við því, að hv. 2. þm. Reykv. mundi því einnig samþykkur. Er því ástæða til að vænta þess, að málið geti gengið mótstöðulítið gegnum þingið.