25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Mér heyrðist hv. 2. þm. Reykv. segja, að mjög margir hefðu komizt að raun um, að heppilegra væri, að fyrirtækið væri starfrækt öðruvísi. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður hafi látið það í ljós. Ég hefi nokkuð skipt við þetta fyrirtæki, og reynzt það ágætlega.

Eins og menn vita, þá er Slippurinn starfræktur á þann hátt, að skipin eru sett þar upp, og svo má hvaða viðgerðarverkstæði sem er framkvæma aðgerðina. Standa því öll viðgerðarverkstæði í bænum jafnt að vígi hvað það snertir.

En að því er snertir það, hvort eigi að starfrækja Slippinn á sama hátt og ýmsar ríkisstofnanir, sem nú eru starfræktar, ef það er meining hv. 2. þm. Reykv., þá skal ég skjóta því til hans, að ég er ekki alveg viss um, að allir þeir, sem skipt hafa við þetta fyrirtæki, haldi þeim viðskiptum áfram, ef á að taka það úr höndum eigendanna, sem hafa starfrækt það með prýði, og fá það í hendur einhverjum mönnum, sem ekki eru stöðu sinni betur vaxnir en sumir af þeim mönnum, sem veita forstöðu fyrirtækjum, sem ríkið rekur, og flest eru illa rekin.