30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Eins og hv. þdm. muna, fór ég fram á við hæstv. forseta, að þetta mál yrði tekið út af dagskrá, þegar það fyrst var hér til 3. umr., svo að mér gæfist kostur á að spyrja eigendur fyrirtækisins, hver áhrif það hefði á rekstur fyrirtækisins, ef brtt. yrði samþ. Ég hefi nú átt tal við þá, og segja þeir, ef till. verði samþ., þá geri það ábyrgðarheimildina einskis virði. Þeir einir hafa hingað til haft alla trésmíðavinnu á hendi og botnhreinsun og málningu skipanna. Það er nauðsynlegt fyrir þá að hafa einkaleyfi á þessu, af því að þeir hafa fasta menn í vinnu, en hafa hinsvegar ekki alltaf nægilegt handa þeim að starfa, nema þeir geti jafnframt látið þá vinna að trésmiðunum; að öðrum kosti samsvarar vinnan ekki kaupgjaldinu. Hinsvegar sé ég ekki, að neinn voði þurfi að stafa af því, þó að eigendurnir fái einkaleyfi á trésmiðum í Slippnum, því að það er ekki skylda skipaeigenda að láta þá annast viðgerðir á skipum sínum; þeir geta hæglega leitað eitthvað annað, ef þeir þykjast fá þar betri kjör. Vænti ég þess, að þeir, sem meta starfsemi þessa fyrirtækis, geri þetta skilyrði fyrir ábyrgðarheimildinni að engu, og legg ég til, að brtt. á þskj. 184 og 200 verði felldar, en heimildin samþ. skilyrðislaust.