30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Forstöðumenn dráttarbrautarinnar hafa einnig átt tal við mig um þetta mál, og ég hefi fengið sömu upplýsingar og hv. þm. G.-K., að dráttarbrautin hefði og þyrfti að hafa nokkra fasta menn í þjónustu sinni. Eftir því sem mér skildist er hér um að ræða 6—8 fasta menn, og það er skiljanlegt, að þeir verði að hafa vinnu að staðaldri, ef kostnaðurinn við uppsátur skipanna á ekki að verða meiri en þörf er á. Þess vegna er það bezt og heppilegast öllum aðilum, að þessir menn hafi forgangsrétt um jafna og stöðuga vinnu, úr því dráttarbrautin þarfnast þeirra, þegar um uppsátur er að ræða. Hinsvegar sé ég ekki annað en að semja mætti við dráttarbrautina um, að þessir föstu menn fengju atvinnu við trésmíðar, botnhreinsun eða málningu, en að öðru leyti væri skipaeigendum heimilt að snúa sér til hvaða trésmíðaverkstæða í bænum, sem þeim sýndist. Þó að þetta yrði gert, þá þarf það ekki að koma í bága við brtt., ekki sízt ef við berum það saman við þann samning, sem bæjarstjórn hefir gert við Slippfélagið, og þann skilning, sem borgarstjóri hefir lagt í hann. 8. gr. þessa samnings hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„H/f Slippfélagið skal haga starfrækslu dráttarbrautarinnar á þann hátt, að eigendum skipa, sem tekin verða upp á dráttarbrautunum. sé heimilt að ráða því, hver framkvæmi viðgerðir á þeim. Félaginu skal heimilt að starfrækja áfram trésmíðastofu þá, sem það nú hefir, og að setja upp sérvélar til skipaviðgerðar, enda fái þeir, sem að viðgerðum vinna, afnot þeirra gegn fyrirfram ákveðnu gjaldi“.

Nú er það svo, að þetta félag er ekki alveg sjálfbjarga um að koma upp fyrirtækinu, og afleiðingin hlýtur að verða sú, að félagið á ekki að hafa möguleika til að skapa sér einokunaraðstöðu á þessu sviði. Það er og heldur ekki hægt að sjá annað en að bæjarstj. hafi einmitt haft þennan skilning, en þó má undanþiggja nokkra fasta menn, svo að vinnan verði félaginu og viðskiptamönnunum þannig ódýrari en ella.

Ég get ekki leynt því, að ég kann því illa, þegar félag, sem notið hefir stuðnings ríkissjóðs og bæjarstj. til starfsemi sinnar, hefir í hótunum um það, að félagið muni ekki sjá sér fært að nota þá hjálp, sem það þó biður um sér til handa, ef Alþingi setur ákveðin skilyrði fyrir hjálpinni, sem eingöngu eru í því fólgin að verja viðskiptamenn fyrir einokun. Ég held, að það verði bezt fyrir alla aðilja, sem hér eiga hlut að máli, að félaginu verði hjálpað til að koma upp brautinni, gegn því, að varðveitt sé þarna samkeppni um alla þá vinnu, sem unnt er, en félagið mundi einmitt fá einokunaraðstöðu um alla vinnu, ef engin slík skilyrði yrðu sett. Þetta er eina fyrirtækið á landinu á þessu sviði, og fyrirsjáanlegt, að önnur samskonar fyrirtæki munu ekki rísa upp til samkeppni við það. Félagið hefir verið stutt bæði með ábyrgðum og fyrirframgreiðslum, og mér finnst Alþingi geta rólega sett hér þau skilyrði, að samkeppni fái að njóta sín á þann hátt, sem frekast má verða. — Annars er félagið algerlega sjálfrátt um það, hvort það vill þiggja hjálpina eða standa á eigin fótum.