30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. G.-K. telur, að ég hafi jafnvel farið með ærumeiðandi getsakir í garð fyrrv. borgarstjóra Knuds Zimsens. Þetta er tilhæfulaust. Ég gaf ekki tilefni til neinna slíkra ummæla í fyrri ræðu minni. Það, sem ég hélt fram, var, að hér væri ekki um neitt annað að ræða, sem gildi hafi, en ákvæði samningsins. Eins og samningurinn er, þá gæti hver skipseigandi unnið það mál fyrir dómstólum, að honum bæri að ráða yfir allri vinnu við skip sitt. En hvernig á því stendur, að Kn. Zimsen gefur hina sérstöku skýringu á ákvæðum samningsins, er annað mál. Hin einfalda skýring á því er sú, að Slippfélagið vill sleppa úr viðjum 8. gr. samningsins, og fyrrv. borgarstjóri hefir verið hlynntari því en aðrir í bæjarstjórninni. Í þessu liggja því engar ærumeiðandi getsakir frá minni hendi. Ég skil bara þau skjöl, sem fyrir liggja í málinu.

Að ég sé að gera félaginu óleik með þessu, er ekki rétt. Ég hefi jafnan tekið vel í málaleitanir þessa félags, þó að ég hinsvegar hafi talið mér skylt að líta jafnframt á hag viðskiptamanna félagsins og landsmanna í heild, m. a. með því að hindra alla einokun í þessu sambandi. En slíkt er ekki af neinni óvild til félagsins, heldur til þess að starfsemi þess megi verða að sem mestum almennum notum. Hv. þm. G.-K. sagði, að ekki þyrfti að óttast það, að viðskiptamenn félagsins yrðu óánægðir, þó að félagið sjálft hefði rétt á að ráðstafa vinnu við þau skip, sem dregin eru upp í Slippinn til aðgerðar. Þetta held ég, að sé nú ekki meira en svo öruggt, a. m. k. hafa menn látið annað í ljós við mig.