07.12.1933
Efri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm, (Jón Þorláksson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir stj. samkv. heimild frá Alþingi ábyrgzt dálitla upphæð fyrir Slippfélagið í Rvík til að koma upp 2 dráttarbrautum fyrir stærri skip en áður hefir verið hægt að taka hér á land til viðgerðar. Nú hefir komið í ljós, að félag þetta, sem var mjög erfiðlega statt fjárhagslega, þegar það byrjaði þessa nýju starfsemi, vantar nokkra upphæð til að ljúka þessum mannvirkjum. Hér er því farið fram á, að stj. ábyrgist einnig þá viðbótarupphæð, gegn bakábyrgð Rvíkurkaupstaðar.

Fjhn. mælir með því, að þessi ábyrgðarheimild verði veitt, en leggur til, að fellt verði burt skilyrði, sem sett var inn í frv. í Nd., og flytur um það brtt. á þskj. 329. Þessu víkur nefnilega svo við, að um starfsháttu þessa félags er samningur milli félagsins og hafnarstj. og bæjarstj. Rvíkur, sem er byggður á því, að hafnarstj. og bæjarstj. leigðu félaginu þá lóð, sem þessi mannvirki eru sett á, og styrktu jafnframt félagið með framlagi hlutafjár, sem nam 110 þús. kr., sem hafnarsjóður lagði til. Þá var gerður samningur um starfrækslu félagsins, og var þar tekið fram, að félaginu væri skylt að láta hverjum sem væri frjálst að framkvæma viðgerðir á þeim skipum, sem tekin væru á þessa dráttarbraut. Þetta hefir í framkvæmdinni verið skilið þannig, að allt járnsmíði í viðgerðunum geti skipaeigendur boðið út og falið hvaða verkstæði bæjarins sem þeir vilja, en Slippfélagið hefir fengið að hafa allt trésmíði og málningu, því að ekki verður hjá því komizt, að þetta fyrirtæki fái að framkvæma eitthvað af þessari vinnu, því að ómögulegt er að taka það mikið fyrir uppsetningu skipanna, að það eitt geti borið rekstrarkostnað félagsins og ávaxtað fé það, sem í því stendur.

Nú er hér farið fram á, að svipuð ákvæði, en þó öðruvísi orðuð en er í gildandi samningum, verði tekin upp í þessi l. sem skilyrði fyrir ábyrgð stj. Fjhn. lítur svo á, að rétt sé að láta stjórnarvöld bæjarins og Slippfélagið eigast við inn þetta atriði eins og áður hefir verið gert. Það er engin hætta á, að hafnarstjórn Rvíkur líti hér minna á hagsmuni skipaeigenda en hagsmuni Slippfélagsins í því sambandi, enda kemur það berlega fram í þeim samningum, sem gerðir hafa verið. Hinsvegar er það, að setja svona skilyrði í l. um heimild fyrir stj. til að veita slíka ábyrgð, sama sem að gera það alveg ómögulegt að framkvæma ábyrgðarheimildina. Sá lánveitandi, sem á að taka við ábyrgðinni, getur það ekki, af því að hann hefir enga aðstöðu til að líta eftir, hvort skilyrðinu er fullnægt eða ekki. Stjórn Slippfélagsins hefir líka látið það í ljós, að ef ekki væri felldur burt sá viðauki, sem Nd. samþ., þá mundi félagið ekki geta notað sér þessa heimild, og þýðir þá ekki að afgr. málið.

Ég skal til viðbótar því, sem ég hefi áður sagt, geta þess, að bæði hefir hafnarsjóður Rvíkur lagt fram stórfé í hlutafé og hafnarsjóður eða bæjarsjóður eiga landið, sem þetta fyrirtæki er byggt á, og hafa leigt því það til ákveðins tíma, og bæjarsjóður eða hafnarsjóður eru í bakábyrgð fyrir þeim lánum, sem ríkissjóður ábyrgist. Ábyrgð ríkissjóðs er því aðeins formið eitt.

Högum þessa félags er nú háttað þannig, að ef því farnast ekki svo, að það geti lifað, þá verður hafnarsjóður Rvíkur að taka það að sér, og nú er svo komið, að hafnarstjórn Rvíkur leggur til einn mann í stjórn félagsins samkv. samningi við Slippfélagið.

Ég vona, að þessar upplýsingar nægi til þess, að hv. d. sjái sér fært að ganga svo frá þessu máli, að það, sem um er þráttað, megi halda áfram að útkljást milli stjórnarvalda bæjarins og Slippfélagsins.