23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (885)

51. mál, strandferðir

Jóhann Jósefsson:

Í grg. fyrir þessu frv. er í það vitnað, að hvergi í nærliggjandi löndum sé erlendum skipum leyft að reka slíka flutninga, sem hér er um að ræða. Þetta má að vísu vera rétt. En það verður að gæta þess; að ennþá erum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum með allar samgöngur, ekki einasta á sjó, heldur líka á landi. Ég tel því mjög varhugavert að gera þær raðstafanir, sem farið er fram á í þessu frv.

Hv. þm. Borgf. minntist flutninga flóabata og annara slíkra skipa, sem eftir þessu ættu að verða nokkrum vandkvæðum það. Ég ætla að benda á það, að þessi vandkvæði koma engu síður við þá flutninga, sem e. t. v. eru þyrnir í augum hv. flm. og sumra annara, en það eru farþegaflutningar, sem útlend skip annast, sem sigla hingað til lands. Ég get sannast að segja engan veginn varið það að styðja með mínu atkv. að ráðstöfunum til þess, að fólki væri ýmist bannað eða látið sæta afarkostum, ef það einhverra hluta vegna þarf að fara hafna á milli, þótt með útlendum skipum sé. Það er nú svo, að fólk er tímabundið á ferðalögum og verður að taka það skip, sem það á kost á í það og það sinnið.

Um mitt kjördæmi er það að segja, að við verðum eingöngu eða því nær eingöngu — ég tel varla strandferðirnar að nota millilandaskipin, bæði íslenzk og útlend. Það mundi baka fólki í Vestmannaeyjum stórkostleg óþægindi, ef torveldað væri mönnum að fara með norskum eða dönskum skipum, sem hingað sigla, samkv. þessum lagaboðum. Auk þess eru bæði þar og sumstaðar annarsstaðar á landinu hafnarskilyrði slík, að það er alveg óverjandi að meina fólki að velja sér far með skipi þegar gott veður er og neyða það til að bíða e. t. v. eftir verra veðri og sjó, þó að með ísl. ríkisskipum væri.

Austfirðingar hafa löngum kvartað undan ónógum samgöngum. En hér gerist hv. 1. þm. S.-M. flm. að því að torvelda kjósendum sínum og öðrum Austfirðingum að nota önnur skip en þau, sem ríkið hefir að bjóða. Held ég sannast að segja, að Austfirðingum sé ákaflega lítill greiði ger með því að banna þeim eða gera þeim dýrara að nota ferðir „Novu“ norður um land og jafnvel til Rvíkur. Því að það er augljóst, að þessi 20% álagning, sem flm. gera ráð fyrir, að þau skip verði að sæta, sem falla ekki undir upptalningu frv., hlýtur náttúrlega að koma á bak þess fólks, sem með skipunum ferðast. Og fólkið yrði nauðugt viljugt að greiða þennan skatt, vegna þess að það stendur í flestum tilfellum svo á, að menn geta ekki frestað ferð sinni til þess að velja um skip, án þess að gera sér meiri eða minna baga og jafnvel stórskaða.

Þessar raddir heyrast oft, að það ætti að banna öllum útlendum skipum að flytja farþega hafna á milli. En ég held, að óhætt sé að segja, að á bak við þær liggi mjög óyfirvegaðar hugsanir og menn taki alls ekki nægilega til greina, hversu samgöngum okkar er í raun og veru áfátt, eins og sakir standa. Eimskipafélagið, sem hér hefir mestra hagsmuna að gæta, hefir aldrei farið fram á það við Alþingi að gera lagaraðstafanir til þess að beina farþegaflutningnum eingöngu á þeirra skip. Einmitt sökum þeirrar þekkingar, sem stjórnendur Eimskipafél. hafa á öllum samgöngum, er þeim það ljóst, að allar slíkar ráðstafanir eru ótímabærar.

Hér eru nú alls ekki tök á því, að ríkisstj. taki alla farþegaflutninga í sínar hendur, eins og talað er um í 1. gr. Það yrði þá sennilega um ófyrirsjáanlegan tíma þannig, að þau skip, sem nú er ætlað að flytja farþega, gerðu það, en þessi l. yrðu aðeins orsök í nýjum skatti á landsmenn.

Hv. flm. sagði, að frv. væri frumsmíð. Ég held satt að segja, að frv. væri betur ósmíðað og eigi ekkert erindi til þingsins, eins og nú standa sakir um samgöngur landsmanna.