23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (887)

51. mál, strandferðir

Jóhann Jósefsson:

Ég vil ekki kannast við, að ég hafi misskilið neitt af því, sem hér liggur fyrir. Frv. talar allskýru máli og staðreyndirnar tala ennþá skýrara máli, og þær þekki ég afarvel, engu síður en hv. 1. þm. S.-M. En ég var ekki búinn að fá fyllilega þann skilning á þessu máli, þegar ég talaði áðan, sem ég hefi fengið eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm., þá, er nú flutti hann. Hann lagði sérstaklega áherzlu á það, að með þessu frv. væri ekki ætlazt til, að af Eimskipafél. væri „að svo stöddu“ tekinn farþegaflutningur milli hafna. Í þessum orðum liggur viðurkenning þess, að bak við þetta frv. liggi samt sem áður sú hugmynd hjá flm. frv., sem gerir hér vart við sig hvað eftir annað á þinginu, að gera Eimskipafél. háðara ríkisvaldinu, þ. e. a. s., að láta ríkið yfirtaka Eimskipafél. í framtíðinni. „Að svo stöddu“ sagðist hv. þm. ekki leggja það til, að tekinn yrði farþegaflutningur af Eimskipafél., en frv. stefnir þá að því að eyðileggja þennan sjálfstæða atvinnurekstur landsmanna og gera hann að ríkisrekstri, og ég verð að segja, að þessi hugmynd gerir frv. engan veginn aðgengilegra. Þvert á móti. Ég er þess fullviss, eftir því sem ríkisútgerð hefir gengið, og þarf ekki lengra að fara en til skipaútgerðarinnar hér, til þess að sjá, að það væri engan veginn betur farið, þótt ríkið væri látið stjórna Eimskipafél. Það er engin ástæða til þess, að almenningur líti á þær samgöngur, sem við höfum við útlönd og útlend skip annast, sem neinn fjandmann landsmanna eða fjandsamlegar þeim, t. d. samgöngurnar við Noreg. Samgöngur við útlönd eru okkur mjög nauðsynlegar og við getum illa án þeirra verið. Sjálfir höfum vér ekki skip til að annast þessar samgöngur að öllu leyti, og því er engin ástæða til þess að amast við því, meðan svo er, að erlend skip sigla hingað til lands. Það eru fleiri hafnir en Vestmannaeyjar, sem njóta góðs af þeim strandferðum, sem útlendu skipin annast. Ég hygg, að það gæti farið svo, að hv. 1. þm. S.-M. gæti fundizt það koma óþægilega við sjálfan sig, hann, sem er Rvíkurbúi, ef hann þyrfti t. d., þegar ekki er bílfært til Norðurlands, að bregða sér til Akureyrar og væri þá hægt frá að nota erlendu skipin, þó honum lægi á að komast leiðar sinnar, og íslenzkt far væri eigi fyrir hendi. Eins og nú hagar til er ekkert vit í því að vera að þessu stímabraki, sem farið er fram á í þessu frv., auk þess sem það var játað í ræðu flm., að frv. er heldur lítið grímuklædd tilraun til þess að koma öllum siglingum landsins undir ríkisvaldið. Hver svo sem hv. þm. segir að almenningsviljinn sé um notkun útlendu skipanna, þá er ég þess fullviss, að meiri hl. þjóðarinnar óskar alls ekki eftir því, að ríkisrekstur teygi arma sína yfir allan farþegaflutning landsmanna. Eftir að hv. þm. hefir lýst yfir þessum tilgangi frv., þá greiði ég atkv. gegn því, að slíkt mál fari til n.