23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (894)

51. mál, strandferðir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. aðalflm. hélt því fram, að í frv. fælist engin skerðing á réttindum Eimskipafél. til farþegaflutninga með ströndum fram. Þó stendur það í 2. gr. frv.: „að meðan íslenzka ríkið hafi ekki nægilegan skipastól til þess að annast farþegaflutningana, þá geti ríkisstj. veitt öðrum skipum leyfi til farþegaflutninga milli hafna á Íslandi, gegn því, að greitt verði í ríkissjóð 20% af fargjöldum“. M. ö. o., þegar ríkissjóður hefir eignazt nægilegan skipastól, þá er Eimskipafél. útilokað frá öllum farþegaflutningi með ströndum fram. Þetta er þannig orðað í frv., af því að hv. flm. vill, að ríkissjóður taki alla farþegaflutninga að sér.

Það er því í meira lagi einkennilegt af hv. flm. að halda því fram, að frv. sé ekki stefnt gegn Eimskipafél., því að gera verður ráð fyrir, að hv. þm. viti, hvað í því frv. felst, sem hann hefir sjálfur flutt. Annars er mjög erfitt að finna nokkurt samræmi á milli þess, sem hv. flm. segir, og frv. þm. Í frv. er gert ráð fyrir því, að skip, sem fá leyfi til að flytja farþega á milli hafna, skuli greiða 20% af fargjöldum í skatt til ríkissjóðs. En hv. flm. sagði í ræðu sinni, að hingað til hafi íslenzk skip ekki viljað annast strandferðirnar án þess að fá styrk úr ríkissjóði. En nú vil ég benda hv. flm. á, að meðan skipin geta ekki annazt strandferðirnar styrklaust, þá er ekki hægt að búast við, að þau geti greitt skatt af flutningum milli hafna, a. m. k. verða þá siglingar Eimskipafél.skipanna á smærri hafnir titilokaðar. Ef nokkur meining á að vera í því ákvæði frv., að ríkisstj. taki einkarétt á farþegaflutningum með ströndum fram, þá hlýtur að vera ætlazt til þess, að ríkissjóður afli sér fleiri skipa í framtíðinni til að framkvæma þá. En það verður að teljast mjög óheppilegt að greina þannig fólksflutninga og vöruflutninga. (EystJ: Það er ekki meining frv.). Það getur ekki annað verið meining frv. en það, sem í því stendur, og ég er að tala um það.