02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 2. kjördeildar (Magnús Jónsson):

Eins og hv. frsm. kjördeildarinnar hefir nú upplýst, hefir ágreiningur orðið um það, hvernig afgr. eigi eitt kjörbréf, það eina, sem kært hefir verið um. Við, sem erum í minni hl. í þessari kjördeild, höfum ekki getað fylgt meiri hl., fyrst og fremst af því, að við sjáum enga ástæðu til að fresta því að taka ákvörðun í málinu. Þessi tvö atriði, sem kært hefir verið yfir, liggja svo ljóst fyrir, eins og hv. frsm. bar ekki heldur á móti, að það er auðvelt að útkljá þau nú þegar. Þar að auki er bæði óheppilegt og rangt að fresta málinu. Sé kosningin gild, þá er rangt að bægja einum þm. frá störfum þingsins, en sé kosningin ógild, þá er nauðsynlegt að kveða þann dóm upp undir eins, því að þá er tíminn dýrmætur fyrir þá, sem sviptir eru fulltrúa sínum, þar til kosning hefir farið fram aftur.

Hér er kært yfir tveimur atriðum. Annað er það, að bæjarfógeti hafi fyrst ekki álitið það lögum samkvæmt að veita aðstoð við kosningu fyrir kjördag. Út frá því er svo upplýst, að einum kjósanda hafi verið synjað um slíka aðstoð. Út af þessu kom fram umkvörtun, svo að bæjarfógeti spyrst fyrir um það, hver sé venjan í þessu efni hér í Reykjavík. Hann fær það svar, að hér sé venja að veita mönnum aðstoð. Þetta er að vísu ekki heimilað í núgildandi kosningalögum. Þar stendur aðeins, að þeir, sem á kjördegi óska eftir aðstoð við kosningu, skuli fá hjálp. Þar af er síðan dregin sú ályktun, að samskonar hjálp sé heimil við kosningu, sem fer fram fyrir kjördag.

En bæjarfógeti lætur sér þetta ekki nægja. Hann spyrst fyrir um þetta í stjórnarráðinu og fær þar þau svör, að rétt sé að veita þessa aðstoð. Að fengnum þessum upplýsingum telur hann sér skylt að veita þessa hjálp, og eftir það er þeim, er óska, veitt aðstoð. En þessi atkvæði eru aðeins 6, svo að þau geta engin áhrif haft á úrslit kosningarinnar.

Hitt atriðið, sem kært er út af, er það, að ekki hafi verið viðhafðir vitundarvottar við atkvæðagreiðsluna utan kjörstaðar, heldur notaður embættisstimpill. Það getur ekki talizt rétt að ógilda kosninguna fyrir þetta, því að engin ástæða er til að halda, að þessi atkvæði hefðu fallið öðruvísi, þó að vottar hefðu verið við, og enginn grunur liggur á um það, að hér hafi verið fals á ferðinni. Hér er aðeins um formsatriði að ræða.

Ég skal ekki sem ólögfróður maður leggja dóm á það, hver réttur embættismönnum er gefinn með embættisstimplinum, en ég veit, að margir halda því fram, að atkvæðaseðlarnir eigi að vera jafngildir, þó að vitundarvottar séu ekki hafðir, og að það sé næg trygging í því, að kosið sé undir umsjá embættismanns ríkisins. Við, sem ágreining gerðum í kjördeildinni, erum þeirrar skoðunar, að Alþingi beri að taka kosninguna gilda nú þegar, ef fylgja á þeirri venju, sem Alþingi hefir látið gilda undir slíkum kringumstæðum sem þessum.

Það hefir verið tekin gild mjög gölluð kosning, af því að augljóst var, að þeir gallar, sem á voru, gátu ekki valdið úrslitum. Árið 1920 var að vísu dæmd ógild kosning eins þm. hér í Rvík, af því að þeir gallar, sem á voru, gátu valdið úrslitum. En árið 1921 var kosning tekin gild, af því að þá gat ekki verið um úrslit að ræða, þrátt fyrir það, að miklir ágallar væru á kosningunni.

Hér eru að vísu formgallar á, en það er augljóst, að þeir geta ekki valdið neinum úrslitum, og svo framarlega, sem ekki er hægt að draga það í efa, að kosning í Hafnarfirði færi eins, þó aftur væri kosið, þá á að taka kosninguna gilda, og leggjum við til, sem vorum í minni hl. þeirrar kjördeildar, sem um þessa kosningu fjallaði, að kosningin verði tekin gild nú þegar.