02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (907)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Jakob Möller:

Ég hefi mælt með því, að frv. verði samþ., af því að ég er ekki meiri bannmaður en svo, að ég tel nægja, að íslenzkir bannmenn bindi sína starfsemi við landhelgina. Þar, sem nú er leyfð framleiðsla áfengra drykkja ótakmörkuð, geri ég ekki ráð fyrir, að það hafi mikil áhrif á drykkjuskap þeirra þjóða, þó leyft sé að flytja héðan eitthvað af áfengu öli. Nú er í frv. aðeins heimilt að framleiða öl til útflutnings. En það má náttúrlega halda því fram, að því verði misbeitt, en þá mætti alveg eins misbeita þeirri ölframleiðslu, sem nú er leyfð í landinu.

En annað mál er það, að ég hefi litla trú á þessu fyrirtæki sem atvinnufyrirtæki. En ég sé enga ástæðu til að meina fyrirtækinu að reyna þetta. Við vitum, að það hefir verið reynt að flytja héðan út svipaða drykki, gosdrykki, en þær tilraunir hafa misheppnazt, og ég er hræddur um, að líkt fari um þetta, þó það sé kannske eitthvað meira brúkað, sem ég veit þó ekki, heldur en gosdrykkir. Ölið er dálítið dýrara og þess vegna meiri möguleikar til þess að hafa eitthvað upp úr því. En þessi tröllatrú á því, að vatnið hér sé svo gott, að það fáist hvergi annað eins, held ég að sé oftrú og hún svíki þá menn, sem byggja allar sínar vonir á því.

Hinsvegar er ég fyllilega þeirrar skoðunar, að ekki sé heppilegt, að framleitt sé sterkara öl til neyzlu innanlands en nú á sér stað, og ég hygg, að ölneytendur geri sig yfirleitt ánægða með þann styrkleika öls, sem nú er, og kæri sig ekki um það sterkara. Ég get því ekki séð neina ástæðu til þess að leggjast á móti því, að leyft verði að framleiða þetta öl til útflutnings.