02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (914)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. Reykv. áleit, að ég talaði óljóst, og þykir mér leitt, ef svo var. En meining mín er, að um leið og leyft er að búa til öl til útflutnings, sem mér þætti mikill ávinningur, tel ég alls ekki sanngjarnt að neita þjóðinni um þennan drykk, sem eftir þessu á að verja skemmdum með auknu áfengisinnihaldi. Mér þykir það raunar engin furða, þó að bannmennirnir hneykslist á því, að nokkur þm. skuli leyfa sér að halda þessum drykk fram móti landanum og óþverranum, sem eru skilgetin afkvæmi bannlaganna; að nokkur þm. skuli styðja það, að bruggað skuli löglega gott öl, hollt öl, öl, sem ekki skemmist, öl með 31%, styrkleika. Nei, þessi framkoma þeirra er í fullu samræmi við brjálsemi þeirra í áfengismálunum yfirleitt. Ég veit vel, að þjóðaratkvgr. snerist ekki um ölið, heldur um það, hvort þjóðin vildi leyfa innflutning sterkra drykkja. En dettur nokkrum lifandi manni í hug, að sú þjóð, sem heimtar whisky og brennivín, skuli ekki vilja leyfa sæmilega sterkt öl? Halda bannmennirnir, að menn vilji helzt af öllu sterku drykkina? Ég held, að svo sé ekki, og mér sýnist ekki, að nein skynsamleg ástæða sé til þess að neyða mann, sem ætlar að gleðja sig, til þess að kaupa rándýr spánarvín, rándýrt whisky og rándýrt brennivín í staðinn fyrir gott og ódýrt öl, með hæfilegum styrkleika. Það er einmitt ein tegund bindindisstarfsemi að fá menn til að neyta heldur veikari drykkja en hinna sterku. Það er viðurkennt annarsstaðar, þar sem öldrykkja er mikil, að ölið er góður drykkur, ekki sízt vegna þess, hve mikið næringargildi það hefir. Ég álít og, að það tvennt fari saman, þó óbeinlínis sé, að þegar innflutningur sterkra drykkja er leyfður, þá fylgi því um leið framleiðsla á hæfilega sterku öli. Og til að hv. 1. þm. Reykv. þurfi ekki að eyða tíma sínum og þingsins í að hártoga þetta orð, vil ég taka fram, að með hæfilega sterku öli á ég við öl með nógu miklum áfengisstyrkleika til að það sé fullkomlega varið skemmdum, þó það geymist lengri tíma. Ef ölið er of veikt og skemmist við geymslu, þá myndast í því ýms skaðvæn efni, og þá er jafnóhollt að láta það ofan í sig og að eta myglað brauð eða úldinn fisk. Ég ítreka, að ég vil ekki fara út í neinar deilur um leyfi eða einkaleyfi, en ég vil, að málinu verði vísað til hæstv. stj. í því skyni, að hún undirbúi löggjöf um, að framleiða megi öl af þessu tægi í landinu, bæði til neyzlu innanlands og útflutnings. Þá er og að athuga, að heppilegast er, að öl til útflutnings sé nokkuð sterkara, eins og venja er með „export“ öl, eða það, sem til útflutnings er ætlað, t. d. 1/2% sterkara. Öl það, sem nú er leyft, hefir ekki nema 1,8% styrkleika, og það er óskynsamlegt lágmark, því að svo veikt öl liggur undir skemmdum. Það er aðeins farið fram á það, að ölið sé haft svo sterkt, að það skemmist ekki, en til þess þarf það að vera um 31/2% að þyngdarstyrkleika. (JakM: Þvættingur). Þetta kann að vera þvættingur í eyrum þessa hv. þm., en svo er ekki um þá, er nokkurt vit hafa á þessu. Ég er enginn sérfræðingur í þessu efni, en það þarf ekki að vera til að vita um jafneinfalt og alþýðlegt atriði og hér um ræðir. Ég vona nú, að hv. þm. hafi skilið, hvað ég meina, og hvort sem hann kallar það þvætting eða ekki, þá hvika ég aldrei frá, að þetta er rétt í öllum aðalatriðum, er ég hefi hér haldið fram.