08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (925)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Þetta mál gat ekki haft langan tíma í n. Meiri hl. n. komst að þeirri niðurstöðu, að það ætti fram að ganga, og fljótt, ef kostur væri.

Ég er ekki viss um, að n. hefði klofnað eins og raun varð á, ef hér hefði verið um framleiðslu öls að ræða fyrir innlendan markað. En með tilliti til þess, að hér í Rvík eru óvenju góð skilyrði til þess að framleiða gott öl, vegna þess hvað vatnið er gott, þá ætti þetta að geta orðið arðvænt fyrirtæki og atvinnuvegur fyrir nokkra menn. Ég býst ekki heldur við, að það hafi áhrif á drykkjuskap erlendis, þó að við framleiðum öl til útflutnings, því að stórþjóðirnar framleiða hvort sem er nægilega mikið. En okkar öl ætti að geta orðið úrvalsvara, af því að drykkjarvatnið hér er svo gott.